Gæti bjargað mannslífum

Andri og Kristinn vinna báðir með fólki með fíknivanda og …
Andri og Kristinn vinna báðir með fólki með fíknivanda og fannst vanta það skaðaminnkandi úrræði að hægt væri að prófa efnin. Þeir stofnuðu því fyrirtækið Varlega. mbl.is/Ásdís

Skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda er málefni sem Kristinn Ingvarsson og Andri Einarsson hafa brennandi áhuga á, en báðir hafa þeir starfað með fólki með fíknivanda, auk þess að hafa menntað sig í sálfræði. ​Andri starfar nú í neyðarskýlinu á Granda þar sem heimilislausir karlmenn fá næturgistingu, mat og aðra þjónustu en margir þeirra kljást einnig við vímuefnavanda.

Kristinn hefur einnig unnið þar en starfar nú í íbúðakjarna á Hringbraut fyrir konur með tvígreiningar; geðrænar áskoranir og vímuefnavanda. Við vinnu sína komu vinirnir fljótt auga á að notendur vímuefna vissu oft ekki til fulls hvað vímuefnin sem þeir keyptu sér innihéldu og hvort þau væru til dæmis blönduð með öðrum og óþekktum efnum; nokkuð sem gæti skaðað fólk eða jafnvel drepið. Þeir stofnuðu því fyrirtækið Varlega sem selur próf sem eru auðveld í notkun og skima fyrir virkum efnum og íblöndunarefnum.

Gæðaeftirlit með prófum

Morfín, Fentanýl, heróín, Oxý­contin og Contalgin eru dæmi um þau ópíóíðaskyldu efni sem Andri og Kristinn segja að séu á markaðnum.

„Þessi lyf eru alltaf til; framboðið er endalaust,“ segir Andri og segir þá félaga hafa viljað gera eitthvað til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll.

„Vegna þess að næstum öll vímu­efni eru ólögleg, þá fást þau bara á svörtum markaði án vottana eða innihaldslýsinga. Það er ekkert gæðaeftirlit með því sem þú ert að kaupa og það tíðkast á þessum markaði að blanda einhverju við efnið sem þú ert að selja og ljúga svo til um það,“ segir Kristinn og segir að sölumennirnir viti oft ekki sjálfir hvað sé í efnunum.

„Við vildum bjóða upp á þetta gæðaeftirlit þar sem fólk gæti prófað efnin sem það er með í höndunum,“ segir Andri og útskýrir að þeir selji bæði einnota og margnota próf.

Ítarlegt viðtal er við Kristin og Andra í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert