Katrín með „augun full af sandi“

Inga og Katrín tókust á í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi …
Inga og Katrín tókust á í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Samsett mynd

Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, fór hörðum orðum um störf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Sagði Inga ríkisstjórnina ekkert vera að gera til að takast á við verðbólgu. Spurði hún hvort ríkisstjórnin myndi gera eitthvað til að laga ástandið:

„Er eitthvað í kortunum, hæstvirtur forsætisráðherra, sem við megum eiga von á að sé og verði til þess að við séum ekki að fara að byggja hér upp annað eins mótmælaástand eins og við þurftum að horfast í augu við í síðasta efnahagshruni?“

Tilefni fyrirspurnar Ingu er boðaður mótmælafundur á laugardaginn sem Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, Hags­muna­sam­tök heim­il­anna og Sam­tök leigj­enda, ásamt fleir­um, standa fyr­ir.

Ekki í lagi að bera ástandið saman við efnahagshrunið

Katrín sagði ekki hægt að bera saman stöðuna nú við stöðuna sem uppi var eftir efnahagshrunið. „Það er algjörlega fjarri lagi,“ sagði Katrín.

Benti Katrín á að skuldastaða heimilanna væri mun betri nú en í kjölfar hrunsins. Einnig væri atvinnuleysi lítið. Þá hefði ríkisstjórnin þegar gripið til ýmissa aðgerða, til dæmis hafi húsnæðisstuðningur verið aukinn og barnabætur hækkaðar.

Minnti Katrín einnig á að ríkisstjórnin væri búin að boða aðhald í ríkisrekstri og aukna tekjuöflun ríkissjóðs.

Inga var allt annað en sátt við svar Katrínar:

„Hún er greinilega enn með höfuðið á kafi í sandi og augun full af sandi,“ sagði Inga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert