Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að íslenskir bankar glími við þann vanda að þau skuldabréf sem þeir gefa út hafi ekki mikinn seljanleika. Fyrir vikið hafi bankarnir gripið til þess ráðs að gefa veð í fasteignum í tengslum við skuldabréfaútgáfu sína. Með því móti hafi bankarnir náð að fjármagna sig.
Var þetta svar við spurningu Ágústs Bjarna Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokks, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar um skýrslu fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands. Spurði hann meðal annars að því hver væri staða og veikleikar íslenska bankakerfisins.
Segir Ásgeir að ekki sé útlit fyrir að erfiðleikar bankanna til að fjármagna sig á erlendum mörkuðum muni breytast í bráð. Meðal annars þurfi Seðlabankinn að velta því fyrir sér að hve miklu leyti bankarnir geti reitt sig á erlenda fjármögnun.
Þegar eru reglur þess efnis að bönkum eru settar skorður um hvernig þeir megi lána innlendum aðilum það fé sem þeir fá með fjármögnun erlendis frá. Þannig geti þeir einungis veitt þau lán til þeirra sem eru með erlendar tekjur.
Hann segir að Seðlabankinn þurfi að íhuga erlenda fjármögnun bankanna. „En ég tel enga hættu á ferðum en ég held að við þurfum aðeins að hugsa þessa erlendu fjármögnun þeirra (bankanna). En þetta eru tiltölulega litlir fjármunir í heildarsamhenginu,“ segir Ásgeir.
Þá sagði hann það sitt mat að lánshæfi Íslands væri of lágt, með einkunn upp á eitt A. Það teldi hann ekki verðskuldað, ef miðað væri við stöðu efnahagsmála hérlendis. „Það er sameiginlegur skilningur um það að við þurfum að gera sameiginlegt átak til að koma okkar málum á framfæri við lánshæfisfyrirtæki. Það skiptir öllu máli fyrir þau vaxtakjör sem við fáum úti,“ segir Ásgeir.