Sex af tuttugu og einu sveitarfélagi, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) sendi bréf í apríl vegna fjárhagsáætlunar ársins 2023, uppfylltu ekkert af þremur lágmarksviðmiðum nefndarinnar um A-hluta rekstrar.
Þetta sýna gögn sem Morgunblaðið hefur undir höndum.
Með A-hluta rekstrar er átt við aðalsjóð sveitarfélags, sjóði og stofnanir, sem að öllu leyti eru rekin fyrir skattfé sveitarfélagsins.
Þau þrjú lágmarksviðmið sem EFS setur, varða framlegð sem hlutfall af tekjum, rekstrarniðurstöðu og veltufé, annars vegar frá rekstri sem hlutfall af tekjum og hins vegar frá rekstri á móti afborgunum lána og skuldbindinga.
Sex sveitarfélög uppfylla ekkert af þessum þremur lágmarksviðmiðum EFS. Þau eru Reykjavíkurborg, Húnaþing vestra, Seltjarnarnesbær, Árborg, Skagaströnd og Tálknafjarðarhreppur. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kallaði viðvörunarbréf EFS „rútínubréf“ í samtali við Morgunblaðið í apríl.
Átta sveitarfélög uppfylla ekki tvö lágmarksviðmið nefndarinnar. Það eru Grundarfjarðarbær, Húnabyggð, Hveragerðisbær, Múlaþing, Norðurþing, Skagafjörður, Vogar og Vesturbyggð.
Þá uppfylla sjö sveitarfélög ekki eitt lágmarksviðmið, en það eru Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Dalabyggð, Hafnarfjörður, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær og Vopnafjarðarhreppur.
Borgarstjórn kemur saman til fundar á hádegi í dag. Þar er aðeins eitt mál á dagskrá, síðari umræða um ársreikning borgarinnar.
Borgin hyggur á skuldabréfaútboð á morgun, en því hefur tvívegis verið frestað á árinu. Borgina vantar 14 milljarða króna til að markmið um 21 milljarðs fjármögnun á öllu árinu gangi eftir.