Ekkert annað en flóttamannabúðir

Þórunn Ólafsdóttir starfaði við hjálparstarf á Lesbos í marga mánuði …
Þórunn Ólafsdóttir starfaði við hjálparstarf á Lesbos í marga mánuði þegar hundruð þúsunda flóttamanna komu þangað frá Tyrklandi. mbl.is/Gúna

„Ég hef áhyggjur af þessu,“ segir Þórunn Ólafsdóttir háskólanemi sem hefur gagnrýnt áætlanir um svokallaða skjólgarða fyrir flóttamenn harðlega. Þórunn hefur sjálf starfað í flóttamannabúðum á alþjóðavettvangi og kveður skjólgarða ekkert annað en það – flóttamannabúðir.

„Mér finnst mörgum spurningum ósvarað, í fyrsta lagi finnst mér sláandi að við séum komin á þann stað að það sé bara í lagi að byggja upp flóttamannabúðir í gámum,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is, „ég sé að það stendur í fréttatilkynningunni að það verði kennslustofur og félagsrými á svæðinu. Á þá ekki lengur að senda börn í almenna skóla?“ nefnir Þórunn af þeim spurningum sem hún telur ósvarað.

Segist hún hafa áhyggjur af því að boðuð uppbygging verði aðeins til þess að fólk einangrist enn frekar og bendir á stöðuna í málefnum flóttamanna víða á meginlandi Evrópu þar sem Þórunn þekkir reyndar sjálf til, hún hefur starfað í flóttamannabúðum í Grikklandi, Makedóníu og á fleiri stöðum á þeim slóðum og telur sig greina ákveðin líkindi með því sem nú er boðað hér á landi.

Hvernig myndi hún þá sjálf vilja sjá staðið að því að veita flóttamönnum heimili á Íslandi?

„Ég myndi bara vilja sjá fólk búa í venjulegu húsnæði, ég veit að það er kannski langsótt eins og staðan er nú á húsnæðismarkaði og við erum kannski komin út í einhverjar afleiðingar af því hvernig húsnæðismarkaðurinn er að þróast,“ svarar Þórunn, ef til vill sé ekki úr miklu að moða á þeim vettvangi eins og er.

Snýst um forgangsröðun

Setur hún spurningarmerki við að draga úr kröfunum gagnvart jaðarsettu fólki þegar skórinn kreppir á húsnæðismarkaði. „Ég neita að trúa því að það sé ekki til húsnæði, þetta snýst bara um forgangsröðun og aðgengi að húsnæði sem er verið að nota í eitthvað annað,“ heldur Þórunn áfram. „Við erum að tala um börn, þau eiga ekki að búa í einhverri gámabyggð fjarri mannabyggðum.“

Þórunn segir fyrirhugaða skjólgarða ef til vill líta ágætlega út við fyrstu sýn, eins og borgin og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kynni þá. „En ég held að við ættum bara að kalla þetta það sem það er, þetta eru fyrstu flóttamannabúðir þessarar tegundar sem verið er að koma upp hér á landi. Ég myndi vilja sjá fleiri spurningum svarað, hver er tilgangurinn með að koma upp þjónustu á svæðinu, á þetta að vera lokað, mun fólk vera frjálst ferða sinna og bara hvert er planið?“ spyr Þórunn Ólafsdóttir að lokum og kallar eftir svörum.

Hér fyrir neðan má lesa pistil hennar um málið á Facebook sem hún birti fyrr í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert