Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk í dag afhentan undirskriftarlista þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að móta stefnu og aðgerðaráætlun til að útrýma fátækt meðal barna á Íslandi fyrir árið 2030.
Í skýrslu Evróphóps Barnaheilla frá því í mars kemur fram að á Íslandi búi um 10.000 börn, eða 13,1% barna, við fátækt. Fátækt barna hefur því aukist um 0,4 prósentustig á milli ára en sem hlutfallið var 12,7% árið áður.
Í áskorun til stjórnvalda er meðal annars farið fram á að boðið sé upp á öruggt húsnæði fyrir lágtekjufjölskyldur, gjaldfrjáls menntun sé tryggð til 18 ára aldurs, og þar með talið námsgögn, auk þess sem menntun og kjör kennara á öllum skólastigum verði efld, einkum á leikskólastigi.
Segir þar einnig að stjórnvöld þurfi að gera áætlanir um forvarnir og viðbrögð við samfélagslegum áskorunum svo sem vegna heimsfaraldurs eða loftslagsbreytinga og þá sérstaklega hvaða áhrif það hefur á börn.
Auk forsætisráðherra voru talsmenn barna á Alþingi viðstaddir viðburðinn.
Forsætisráðherra tók við undirskriftalistanum í Alþingishúsinu kl. 13.30 í dag. Hún segir markmiðin vera mikilvæg þar sem Ísland sé búið að skuldbinda sig til að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
„Þetta rímar við okkar stefnumörkun,“ segir forsætisráðherra við við mbl.is. „Þó að Ísland standi sig vel, og jafnvel best, í alþjólegum samanburði, þegar kemur að fátækt barna viljum við að ekki neitt barn búi við fátækt,“ segir forsætisráðherra við mbl.is.
Hún segir að stjórnvöld hafi gert ýmislegt til þess að tækla vandann og nefnir lengingu fæðingarorlofs, styttingu vinnuvikunnar og hækkun barnabóta sem dæmi.
„En það breytir því ekki að við erum ennþá með of margar hindranir. Það eru þættir sem við getum gert betur og hér var sérstaklega rætt um húsnæðismálin. Ég held að það blasi við að þó að stjórnvöld hafi verið að beita sér á húsnæðismarkaði á undanförnum árum hefur enn ekki verið byggt nóg til þess að standa undir þörfinni,“ segir hún og bætir við að hún muni leggja málið fyrir á næsta ríkisstjórnarfundi.
„Það eru auðvitað fjöldamörg ráðuneyti sem eru að vinna að þessu í sínum ranni þannig að þetta verður rætt þar.“
Barnaheill hafa í gegnum árin beitt sér fyrir ýmsum málum til að stuðla að jöfnuði á meðal barna á Íslandi. Þar má nefna gjaldfrjálsa tannlæknaþjónustu og gjaldfrjáls námsgögn með góðum árangri.
„Fátækt er brot á mannréttindum barna,“ sagði Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum, í stuttu erindi við afhendingu undirskriftanna.
„Þau börn sem búa við fátækt fá ekki notið til fullnustu þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er lögfestur á Íslandi. Þeim er mismunað um þau réttindi vegna efnahagslegrar stöðu foreldra sinna, sem þau bera enga ábyrgð á,“ segir hún og bætir við að barn sem býr við fátækt missi af tækifærum sem önnur börn hafa og sé líklegra til að búa við fátækt sem fullorðinn einstaklingur.