Kæra útboð á öflun loftmynda

Hornstrandir
Hornstrandir Ljósmynd/Loftmyndir

Karl Arnar Arnarsson, framkvæmdastjóri Loftmynda, gagnrýnir útboð á öflun loftmynda á Íslandi. Hann segir gögnin þegar til í þeim gæðum sem verið sé að biðja um og jafnvel betri. Kostnaður ríkisins við að koma upp slíkum kortagrunni sé ekki í fjárlögum og því óljóst hvernig til standi að fjármagna verkið. Þá sé fólgin ákveðin áhætta í fjárfestingunni. 

Efnt var til útboðs um öfl­un loft­mynda af Íslandi vegna brýnn­ar þarfar á því að út­vega þessi grunn­gögn fyr­ir sam­fé­lagið og veita opið aðgengi að þeim, að sögn Gunnars Hauks Kristinssonar, setts forstjóra Landmælinga Íslands. Mbl.is fjallaði um málið í vikunni þar sem kemur jafnframt fram að gögn sem þessi hafi ekki verið til hérlendis. 

Fyrirtækið Loftmyndir, sem starfandi hefur verið hér á landi í um 30 ár, hefur þegar skapað þann gagnagrunn sem til stendur að afla með útboði um öflun loftmynda af Íslandi. Frá stofnun fyrirtækisins hefur það unnið að því að skapa gagnagrunnin sem nú geymir 30 ára sögu landsins í myndum.  

Gagnagrunnurinn aðgengilegur öllum

Þær myndir sem ætlað er að afla með útboðinu eru því til hjá Loftmyndum, að auki í betri upplausn eða gæðum en farið er fram á í útboðinu. En í því er farið fram á að myndirnar verði í 25x25 cm upp­lausn um allt land og 10x10 cm upp­lausn á höfuðborg­ar­svæðinu og á stóru svæði í kring­um Kefla­vík­ur­flug­völl. Karl bendir hins vegar á Loftmyndir hafa þegar tekið loftmyndir af yfir 90 þéttbýlisstöðum á landinu í 10x10 upplausn, eða betri gæðum en farið er fram á. 

Þá er gagnagrunnurinn að sögn Karls aðgengilegur öllum á map.is auk þess sem ríkið er í dag með samning við fyrirtækið um aðgang að öllum gögnum, þar af leiðandi eru allar stofnanir á vegum ríkisins með aðgang að gagnagrunninum og er hann til að mynda notaður við hannanir í vegakerfinu. 

Gagnrýnir útboðið

Karl gagnrýnir að ekki sé sóst eftir því að nýta þann gagnagrunn sem þegar er til. Miðað við þarfagreiningarskýrslu sem gerð var árið 2019 er áætlaður kostnaður við verkið 750-900 milljónir og eftir það 130-150 milljónir til þess að viðhalda gagnagrunninum, miðað við uppreiknaðan kostnað til dagsins í dag. En kostnaður vegna samnings ríkisins við Loftmyndir, er í dag töluvert lægri en gert er ráð fyrir í skýrslunni. 

Verkefnið felur í sér aukna innhýsingu ríkisins í beinni samkeppni við einkafyrirtæki á markaði og enn er óljóst hvernig til stendur að fjármagna verkefnið, enda ekki gert ráð fyrir kostnaði ríkisins í fjárlögum. Þá segir Karl útboðinn kostnað aldrei koma til með að endurspegla endanlegan kostnað enda ætli ríkið að taka á sig kostnað vegna slæmra veðurdaga, en á þeim dögum er ekki hægt að mynda. 

Þá hefur því verið stillt upp þannig í útboðinu að fengnar verði flugvélar hingað til lands frá Evrópu. Kolefnissporið af því er að sögn Karls töluvert mikið en það hefur ekki verið reiknað út. Loftmyndir á hins vegar tæki hér á landi sem notuð hafa verið við myndatöku með flugvél sem staðsett er hér á landi.

Í verki sem þessu skiptir miklu máli að búnaðurinn sé til taks til þess að hægt sé að rjúka af stað þegar aðstæður til myndatöku eru góðar, enda veðrið helsta áskorunin. Það felst því mikil áhætta í útboðinu að mati Karls enda alls óvíst með íslenskt veður og ljóst að kostnaður af rigningardögum verður mikill. 

Verkið á að taka þrjú til fimm ár en til samanburðar tók það Loftmyndir 15 ár að byggja upp þann gagnagrunn sem þau búa yfir. Karl segir mikla hættu á að verkið myndi jafnvel aldrei klárast, því þó það sé tiltölulega auðvelt að ná myndum af 50%-60% af öllu landinu þá eru staðir sem erfiðara er að ná myndum af. Til að mynda vestur á ströndum þar sem er jafnvel oft er skýjað. 

Loftmyndir hafa kært úrboðið til kærunefndar útboðsmála þar sem farið er fram á að innkaupaferlið sé stöðvar þegar í stað eða þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum Loftmynda. 

Ljósmynd/Loftmyndir
Ljósmynd/Loftmyndir
Önundafjörður - flateyri
Önundafjörður - flateyri Ljósmynd/Loftmyndir
Kársnes - Kópavogur
Kársnes - Kópavogur Ljósmynd/Loftmyndir
Ísafjarðarflugvöllur
Ísafjarðarflugvöllur Ljósmynd/Loftmyndir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert