Gert er ráð fyrir að meðalhiti sumarsins verði markvert hár samkvæmt þriggja mánaða spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF) fyrir júní til ágúst.
Á veðurvefnum Bliku sem veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson heldur úti kemur fram að spáin gefi góð fyrirheit um sumarið.
Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að yfir 70% líkur séu á því að meðalhiti sumarsins verði á efri þriðjungi, þ.e.a.s. að það verði markvert hlýtt.
„Sé spáin greind niður á mánuði sést að í júní eru líkur á háþrýstisvæði hér við landið eða austur- og suðausturundan. Gefur fyrirheit um einkar hagfellt veður. Í júlí gerir spá ECMWF síðan ráð fyrir áberandi háþrýstingi yfir Bretlandseyjum. Þá meira um hreinar sunnanáttir og líklega þá rigningarsamt sunnantil, en hlýtt norðan- og austantil. Ágúst-spáin er síðan minna afgerandi, en heldur sig samt á sömu meginlínunni,“ segir í færslu Einars.
Þá kemur fram að á þessum tíma í fyrra þegar sama spá var skoðuð fyrir sumarið 2022 hafi myndin verið allt önnur.
„Áberandi lægðafrávik sást þá við Ísland og aukinn þrýstistigull til suðurs. Enda fór það svo að sumarið var í svalara lagi, þungbúið í það heila tekið, einkum sunnan- og vestantil. Úrkoma þar umfram meðallag. Sjáum líka að gert var ráð fyrir markverðum hita víða á meginlandi Evrópu. Enda fór það svo að sumarið var þar með þeim allra heitustu þegar upp var staðið.“