Bjart­sýn á á­þreifan­legar niður­stöður fyrir Úkraínu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur í morgun setið þrjá tvíhliða fundi með þjóðarleiðtogum áður en að formleg dagskrá leiðtogafundarins hefst. Þá mun hún einnig funda með Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forsætisráðherra Úkraínu.

Spurð hvort hún sé vonsvikin vegna þess að Selenskí, forseti Úkraínu komi ekki til landsins segir hún að það hefði vissulega verið heiður að fá að taka á móti honum. Hún skilji þó að staða hans sé ekki einföld. Þá verði friðartillögur Úkraínu ræddar í kvöld á kvöldverði fundarins.

Þá er hún spurð hvort að hún telji að Evrópa verði sameinaðri í málefnum er varða stríðið í Úkraínu eftir fundinn.

„Já, það hefur komið mér ánægjulega á óvart, því maður veit að það er meiriháttar mál að ná saman 46 Evrópuþjóðum um einhverja sameiginlega niðurstöðu. Við erum búin að vera að vinna að því að leiða saman aðila til þess að sameinast um svokallaða tjónaskrá sem á að halda utan um þann skaða sem Rússar hafa valdið með sínum verkum í Úkraínu. Sá undirbúningur hefur gengið vel, ég er mjög bjartsýn á að það verði mjög áþreifanleg niðurstaða á þessum fundi í þeim málum. Það er auðvitað lykilatriði bara til þess að tryggja að Rússar axli ábyrgð á því sem þeir hafa gert með innrásinni. Þannig að ég hef trú á því að það verði áþreifanleg skref í þessa átt, í að ekki bara árétta pólítískan stuðning í yfirlýsingu með skýrum hætti heldur líka, eins og ég segi, áþreifanlegar niðurstöður sem styðji enn betur við Úkraínu,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert