Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vongóð um árangur af leiðtogafundi Evrópuráðsins sem nú er að hefjast í Hörpu. Þegar hún gekk inn á fundinn ræddi hún stuttlega við blaðamenn og sagði hún skilaboð fundarins vera skýr: Samstaða með Úkraínu.
Hún var einnig spurð um netárásir í morgun, en rússneskur hakkarahópur hefur lýst ábyrgð á þeim. Sagði hún að árásirnar kæmu ekki á óvart, en að Íslendingar hefðu verið undirbúnir fyrir slíka árás.
Hélt hún því næst inn á fundinn, en eftir skamma stund mun forseti Íslands ávarpa fundargesti og síðar mun Katrín setja fundinn formlega með opnunarávarpi.