„Þetta er bara mjög óþægilegt mál finnst mér,“ segir Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, um þá sameiningu hennar gamla skóla og Menntaskólans við Sund sem nú er til umræðu – með aðsetur í fyrrverandi húsnæði Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð.
„Mér finnst að skólar, sem starfa samkvæmt öllum reglum, eru að gera það gott, njóta aðsóknar, njóta vinsælda og eru ekki með brottfall, ættu bara að fá að vera í friði,“ heldur skólameistarinn fyrrverandi áfram og dregur ekki dul á afstöðu sína gagnvart sameiningunni fyrirhuguðu.
Kveður hún málið hið undarlegasta, Kvennaskólinn sé frábær skóli sem eigi bara að fá að vera þar sem hann er og eins og hann er. „Þetta á að vera flóra fyrir krakkana, að geta valið mismunandi skóla með mismunandi áherslur,“ segir Ingibjörg sem stjórnaði Kvennaskólanum um sautján ára skeið og fór á eftirlaun um áramót 2015/16.
„Ég var þá ekki tilbúin í fimm ár í viðbót og ákvað að fara bara út úr þessu, ég held að enginn hafi verið orðinn leiður á mér þannig að það var ágætistími til að fara,“ rifjar Ingibjörg upp, „en manni er ekkert sama um svona stofnun auðvitað.“
Hún segir það jafngilda því að leggja skólana tvo niður að sameina þá og færa þá í Hlíðarnar auk þess sem skólameistarinn fyrrverandi setur stórt spurningarmerki við þá staðsetningu, gamla kennó. „Mér finnst það mjög undarlegt að ætla að fara með þessa skóla upp í Stakkahlíð, á sama svæði og Menntaskólinn við Hamrahlíð, Verslunarskólinn og Fjölbraut í Ármúla. Þarna á að setja fjórða bóknámsskólann. Ég veit bara ekki hvað menn eru að hugsa,“ segir Ingibjörg ómyrk í máli.
Yrði þarna um sparnað eða hagræðingu í rekstri að ræða ef til vill?
„Mér finnst það nú lykta af einhverju Excel-skjali bara. En það vantar pláss fyrir verknámið. Það er verið að neita hundruðum nemenda um að komast í verknám á ári hverju og það er ekkert verið að leysa það – og það verður alls ekki leyst með þessu. Nú á að fara að byggja yfir verknámið í Hafnarfirði sem mér finnst ekkert góð hugmynd. Af hverju á að fara að senda 2.500 til 3.000 krakka til Hafnarfjarðar í verknám?“ spyr Ingibjörg, „hvernig virkar það í umferðinni?“
Og enn spyr hún. „Af hverju nota menn ekki tækifærið núna þegar þetta stóra húsnæði í Stakkahlíðinni er að losna og endurhanna það fyrir verknám? Þarna eru allar stærðir og gerðir af stofum og sölum og þetta er í tengslum við Sjómannaskólann [nú Tækniskólann], þetta er á sömu lóð eiginlega,“ bendir Ingibjörg á.
Eftir allan þinn feril í skólamálum, hvernig finnst þér staða íslenskra framhaldsskóla vera nú á dögum?
„Mér finnst hún vera góð, nema hvað varðar verknámið. Þar vantar bæði húsnæði og starfsfólk, kennara, án þess að ég þekki það mjög vel, en fólk er náttúrulega bara að vinna aðra vinnu. Skólarnir eru mjög fjölbreyttir og ég held að þeir sem ætla í bóknám finni flestir eitthvað við sitt hæfi,“ svarar Ingibjörg og talið berst að styttingu framhaldsskólans þótt ekki hafi hún beint verið undir í þessu spjalli.
„Ég er mjög hlynnt henni, ég var náttúrulega brautryðjandi í henni. Við gerðum þetta í Kvennaskólanum fyrst allra skóla með Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og mér fannst það takast bara alveg svakalega vel,“ segir Ingibjörg.
Aðrir skólar hafi verið þvingaðir í styttinguna umdeildu og segir Ingibjörg marga enn óánægða með hana. „Eins og þetta var lagt upp í upphafi máttu skólarnir gera þetta á sinn hátt, eins og þeir töldu henta, og það gerðum við. Mér fannst þetta takast mjög vel í Kvennaskólanum og er bara í góðu lagi eins og er. Svo einhvern veginn fannst mér ráðuneytið svolítið bregðast skólunum í því að leyfa þeim ekki að vera eins og þeir vildu vera,“ segir Ingibjörg og telur suma skóla hafa verið þvingaða í ferli sem ekki hentaði þeim.
Að auki sé styttingu framhaldsskólans nú kennt um ýmsa óáran í samfélaginu sem hún telur alrangt. „Menn gleyma öllu áreitinu sem unglingarnir verða fyrir, kóvidinu og þeir eru á kafi í þessum símum og tölvuleikjum, það er það sem gerir þá félagslega ófæra ekki að það sé of mikið að gera í skólanum. Þeir bara gefa [skólanum] ekki tíma, þeir eru bara að gera annað,“ segir Ingibjörg ákveðin.
Talið berst að skipulagsmálum framhaldsskóla. „Það er verið að byggja í Skerjafirði, það er verið að byggja úti á Granda og það er verið að byggja á Valsreitnum, verið að þétta alla þessa byggð í vesturborginni. Eiga svo börnin bara að fara eitthvað annað í skóla? Af hverju fá þessir skólar ekki bara að vera í friði í miðbænum sem einn punktur fyrir þessa krakka,“ segir hún og nefnir Menntaskólann við Sund.
„Nú á að byggja í Vogunum og á Ártúnsholti og það er verið að byggja við Grensásveg. Íbúðirnar í Heimunum eru að endurnýjast. Af hverju á þá að taka eina framhaldsskólann á svæðinu í burtu, hvaða hugsun er í þessu? Svo er alltaf verið að tala um umferðina á höfuðborgarsvæðinu, þetta er ekki til að draga úr henni,“ heldur Ingibjörg áfram og telur enn fremur að Reykjavíkurborg hafi ekki minnsta áhuga á málefnum skólanna.
„Mér finnst borgin svo passíf í þessu máli, hún hefur aldrei neina skoðun á þessu, mér finnst það skrýtið. Af hverju hafa þeir ekki skoðun á framhaldsskólunum eins og öðru, hvar þeir eru, hvernig þeir eru og í hvaða hverfum? Það kom eiginlega aldrei neitt frá Reykjavíkurborg þegar ég var í Kvennaskólanum, nema þegar við fengum Miðbæjarskólann, það var mjög góður punktur, annars finnst mér alltaf eins og Reykjavíkurborg sé alveg sama um framhaldsskólana, það var alltaf mín tilfinning gegnum árin,“ segir hún.
Rifjar Ingibjörg í framhaldinu upp þegar hún var skólameistari Menntaskólans á Ísafirði í eitt ár. „Þá fann ég svo sláandi þennan mun. Þar var sveitarfélaginu ekki sama um skólann sinn og þar komu alþingismenn og ráðherrar oft inn á kennarastofu. Þeir sáust aldrei í Kvennaskólanum þótt hann væri við Tjörnina. Þetta var sláandi munur á því hvað nærumhverfið lét sig varða framhaldsskóla,“ segir fyrrverandi skólameistarinn.
Að lokum ítrekar hún undrun sína varðandi sameiningu skólanna tveggja. „Mér finnst þetta vera dæmi um það að láta sig ekki framhaldsskólann varða, hann er mjög mikilvægur, ofboðslega mikilvægur í uppeldi unglinga,“ segir Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, að lokum um fyrirhugaða sameiningu síns gamla vígis og Menntaskólans við Sund.