Telur engar líkur á að tillagan verði samþykkt

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi segist telja engar líkur á …
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi segist telja engar líkur á að staðsetningin verði samþykkt. Samsett mynd

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að nauðsynlegt sé að finna nýja staðsetningu fyrir nýja endurvinnslustöð Sorpu sem taka eigi við af stöðinni á Dalvegi. Hún kveðst ósammála tillögunum um að stöðin eigi að vera við kirkjugarðinn við Lindakirkju.

„Mikilvægt er að finna heppilega staðsetningu fyrir endurvinnslustöð sem bæði þjónar hagsmunum Kópavogsbúa, sem og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.

Að okkar mati er sú tillaga sem starfshópurinn hefur lagt til ekki heppileg, meðal annars því svæðið er í miðri íbúðabyggð og vinsælt útivistarsvæði við hliðina á kirkjugarði Kópavogs.“

Tillaga starfshóps um staðsetningu á nýrri endurvinnslustöð hefur verið afar umdeild meðal Kópavogsbúa og meirihlutinn í bæjarstjórn Kópavogsbæjar hefur lítinn áhuga á að taka frá einn hektara af kirkjugarðinum til þess að skapa pláss fyrir stöðina.

Allir í starfshópnum sammála

Allir fulltrúar í starfshópnum sem lagði fram tillöguna voru sammála um að þetta væri besta lausnin á málinu en starfshópurinn er meðal annars skipaður fulltrúum Kópavogsbæjar.

„Þrátt fyrir að fulltrúar Kópavogs hafi setið í stýrihópnum sem kemst að þessari niðurstöðu þá erum við sem gegnum forystu í bænum ósammála niðurstöðunni, enda virðist vera sem lítið tillit hafi verið tekið til nærliggjandi byggðar og notkunar svæðisins í dag. Sem betur fer hefur stýrihópurinn ekki skipulagsvaldið heldur bæjarstjórn,“ segir Ásdís.

Hún tekur fram að miðað við þau viðbrögð sem hún finni fyrir frá íbúum Kópavogs telji hún engar líkur á því að bæjarstjórnin fallist á tillöguna.

Boltinn hjá stjórn Sorpu

Ásdís segir að tillaga starfshópsins hafi enn ekki verið tekin til efnislegrar umræðu hjá bæjarráðinu en hún vænti þessi að það gerist í kjölfarið. 

„Ég vænti þess að næsta verk hjá stjórn Sorpu sé að koma með tillögu að nýrri staðsetningu, hvort sem það er í Kópavogi eða nærliggjandi sveitarfélögum,“ segir hún en Orri Vign­ir Hlöðvers­son, formaður bæj­ar­ráðs Kópa­vogs­bæj­ar, er í stjórn Sorpu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert