Hyggja á kosningu um sameiningu í haust

Tálknafjörður á Vestfjörðum.
Tálknafjörður á Vestfjörðum. mbl.is/Guðlaugur Albertsson

Stefnt er að íbúakosningu um sameiningu Tálknafjarðahrepps og Vesturbyggðar 28. október. Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðahrepps, segir skýra kröfu vera frá íbúum á svæðinu um gerð jarðganga á sunnanverðum Vestfjörðum um Mikladal og Hálfdán. Samstarfshópur um sameiningu sveitarfélaganna hitti sex þingflokka á mánudaginn og kynnti fyrir þeim málið.

Í blöðungi sem hópurinn afhenti þingflokkunum segir að göngin séu lykillinn að sameiningu og myndi tengja saman byggðarkjarnana Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal. Ólafur Þór segir í samtali við mbl.is kröfuna um jarðgöng sterka. „Krafa um jarðgöngin hefur komið alls staðar, frá íbúum svæðisins, kjörnum fulltrúum og hagaðilum.“

Vilja fá göngin í samgönguáætlun

Samstarfsnefnd um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar hvetja Alþingismenn til að setja tvenn jarðgöng í einni framkvæmd um Mikladal og Hálfdán í samgönguáætlun. Lagði samstarfshópurinn til að í samgönguáætlun fyrir árin 2024-2028 yrði undirbúningur og hönnun að umræddum göngum hafinn og að gert verði ráð fyrir framkvæmdum á göngunum við gerð samgönguáætlunar árin 2024-2038.

Ólafur er temmilega vongóður um að til framkvæmda komi og segir nokkur rök vera fyrir því. „Það er uppsöfnuð framkvæmdaskuld í samgöngumannvirkjum hér á svæðinu. Hér eru vegir sem hafa verið dæmdir ónýtir. Í öðru lagi verður að horfa til útflutningsverðmætanna sem verða til hér á svæðinu. Við viljum að tekjurnar sem koma af þessum verðmætum séu notaðar til að byggja upp innviði þessa svæðis. Í þriðja lagi þá fylgir þetta stefnu stjórnvalda varðandi eflingu sveitastjórnarstigsins og áherslu á mannvirkjagerð. Í síðasta lagi þá er þetta grunnforsenda fyrir því að nýtt sveitarfélag geti virkað sem ein samfélagsleg heild.“

Stefnt á kosningar í haust

Hann segir að þingflokkarnir hafi allir sýnt skilning og er vongóður um að það skili sér í því að hönnun verksins og undirbúningur verði á fyrsta áfanga í samgönguáætlun. Stefnt er að íbúakosningu um sameiningu 28. október og eru ráðgerðir íbúafundir í byrjun júní um sameiningarverkefnið.

Miklidalur er fjölfarnasti fjallvegur Vestfjarða og skilur að Patreksfjörð og Tálknafjörð. Hálfdán er einn hæsti fjallvegur landsins í 500 metra hæð yfir sjávarmáli og skilur að Tálknafjörð og Bíldudal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert