Nýr Suður­lands­vegur opnaður á undan á­ætlun

Forstjóri Vegagerðarinnar og innviðaráðherra klipptu á borðann.
Forstjóri Vegagerðarinnar og innviðaráðherra klipptu á borðann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu í dag nýjan Suðurlandsveg, sem liggur á milli Hveragerðis og Selfoss, við hátíðlega athöfn í dag. Verkinu átti að ljúka í september á þessu ári og það er því nokkuð á undan áætlun.

Umferðaröryggi á svæðinu eykst vegna nýja vegarins. Búið er að skilja að akstursstefnur og fækka vegamótum úr meira en tuttugu, í tvenn. Stór hluti verksins var tekinn í notkun á síðasta ári.

„Tvenn stór vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg. Fimm steyptar brýr og undirgöng ásamt tvennum reiðgöngum úr stáli, teljast einnig til framkvæmdanna. Að auki voru gerðar miklar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja,“ segir um verkið á vef Stjórnarráðsins.

Hluti framkvæmdarinnar var opnaður í fyrra.
Hluti framkvæmdarinnar var opnaður í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eykur öryggi og bjargar mannslífum“

Framkvæmdin sjálf nær um sveitarfélögin Ölfus og Árborg og skiptist í Hringveg, Ölfusveg, Þórustaðaveg og Biskupstungnabraut. Þá er umferð um sveitirnar í kring sögð færast yfir á nýjan Ölfusveg sem liggi samhliða Hringvegi.

Ráðherra flutti ávarp í tilefni opnunarinnar, þar sem hann sagði framkvæmdina mjög tímabæra.

„Ég hef í ráðherratíð minni lagt sérstaka áherslu á að fækka einbreiðum brúm og vegamótum, stytta vegalengdir milli staða og síðast en ekki síst að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegunum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þessi vegarkafli milli Hveragerðis og Selfoss, er einn af þeim fjölförnustu á landinu og því var framkvæmdin mjög tímabær. Það hefur sýnt sig og sannast að aðskilnaður akstursstefna eykur öryggi og bjargar mannslífum,“ er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert