Það er 10% verðbólga, vextir nálgast 9% og enginn vill bera ábyrgð. Eitt stærsta vandamál okkar tíma er vantraust og vantrú í garð stjórnmálamanna. Þetta sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni um stöðuna í efnahagsmálum á Alþingi í dag.
Í ræðu sinni sagði Kristrún Íslendinga finna fyrir brestum víða. Það væri sama hversu oft ráðherrar þyldu upp tölfræði um kaupmátt ráðstöfunartekna og ýmsa mælikvarða á tekjujöfnuð, brestir hafa myndast víða í velferðarkerfinu og almenningu finnur fyrir brestum á húsnæðismarkaði.
Meðalhúsnæði kostar í dag 14-faldar meðalráðstöfunartekjur í landinu samanborið við áttfaldar tekjur á síðasta áratug. Sagði Kristrún þetta verða helstu ástæðu þess að vaxtahækkanir séu svona sársaukafullar, fólk skuldi meira í húsnæði sínu því hvert prósentustig vegi þyngra. Hömluleysið á húsnæðismarkaði er rót verðbólgunnar í dag að mati Kristrúnar.
Þá sagði Kristrún ríkisstjórnina hafa brugðist því að tryggja húsnæðisöryggi fólks. Miðað við fjármálaáætlun til næstu ára sé ljóst að öll fyrirheit um stórkostlega uppbyggingu í húsnæðismálum séu brostin.
Jafnframt sagði Kristrún samningsleysi við sérfræðilækna hafa kallað margra milljarða króna aukareikninga yfir viðkvæmasta hópinn í landinu. Fólk þurfi nú að borga fyrir öryggi sitt úr eigin vasa, sem síðan birtist í auknum launakröfum.
Kristrún sagði ríkisstjórnina eftirláta ókjörnum embættismönnum í Seðlabankanum einum að taka risastórar ákvarðanir sem hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks í stað þess að taka ábyrgð. En þó Seðlabankinn hafi það hlutverk að tryggja verðstöðugleika þá hafi hann takmörkuð tól til þess að tryggja jöfnuð í landinu.
Að lokum sagði Kristrún að á næstu dögum myndi Samfylkingin leggja fram tillögur um vaxtabætur og að Samfylkingin hafi ítrekað beðið ríkisstjórnina um að setjast niður með verkalýðshreyfingunni til þess að útfæra tímabundna leigubremsu.