Telja æskilegt að leggja niður auglýsingadeild RÚV

Ríkisútvarpið.
Ríkisútvarpið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis telur fulla ástæðu til að endurskoða rekstur Ríkisútvarpsins hvað auglýsingadeildina varðar og telur æskilegt að leggja hana niður. 

Þetta kemur fram í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar vegna frumvarps Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um breytingu á fjölmiðlalögum. Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar lagði fram álitið fyrir þingið í dag.

Í álitinu er tekið fram að nefndin hafi rætt hvernig RÚV hefur haldið sinni sterku stöðu á auglýsingamarkaði á sama tíma og staða einkarekinna fjölmiðla hafi versnað til muna vegna vöxt samfélagsmiðla og tæknifyrirtækja sem hafa valdið straumhvörfum á auglýsingamarkaði.

Ekki tímabært að taka RÚV af auglýsingamarkaði

Nefndin telur þó að áður en tekin er ákvörðun um breytingu á veru RÚV á auglýsingamarkaði þurfi fyrst að fara fram ítarleg rannsókn og greining á fjölmiðla- og auglýsingamarkaðnum til að tryggja að auknar auglýsingatekjur skili sér til einkarekinna fjölmiðla hér á landi.

Þau telja þó að leggja eigi niður auglýsingadeildina þannig að auglýsendur geti pantað auglýsingar í gegnum vef RÚV samkvæmt verðskrá. Sextán manns starfa á auglýsingadeildinni en Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir nefndarálitinu á Alþingi í dag.

Auglýsingadeildin allt of árásargjörn

Í ræðu sinni sagði Bryndís meðal annars að komið hefði fram í samtali nefndarinnar við ýmsa aðila á fjölmiðla- og auglýsingamarkaði að auglýsingadeild RÚV væri allt of árásagjörn á auglýsingamarkaði. Jafnframt tók hún fram að sumir vildu meina að RÚV bryti í bága við samkeppnislög. 

Hún nefndi að auki að héraðsfréttamiðlar hefðu gert athugasemd við að auglýsingadeildin hefði sankað að sér þeim litlu auglýsingatekjum sem væri að fá í kringum útsendingar á sjónvarpsþættinum Útsvar í gegnum árin þar sem fulltrúar sveitarfélaga komu fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert