Formenn senda út ákall vegna Úkraínu

Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, undir íslenska fánanum á fundi …
Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, undir íslenska fánanum á fundi með forseta úkraínska þingsins í febrúar. Ljósmynd/Facebook/Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur sett nafn sitt við ákall um að afnema grá öryggissvæði í Evrópu sem og óvissu í kringum aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu.

Formenn utanríkismálanefnda þjóðþinga 20 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins settu nafn sitt við ákallið til stjórnvalda þessara og annarra ríkja.

Ákallið sýnir mikla samstöðu

Bjarni segir í samtali við mbl.is að ákallið snúist um að áfram verði stutt við bakið á Úkraínumönnum, sem kalla eftir einhvers konar tryggingu fyrir öryggi sínu til framtíðar. Hann segir ákallið sýna mikla samstöðu þeirra sem setja nafn sitt við það.

„Stór hluti hópsins sem stendur að þessu fór saman til Kænugarðs í febrúar, þegar eitt ár var liðið frá innrás Rússa. Þar átti hópurinn fundi með ráðamönnum, meðal annars Volodimír Selenskí forseta. Þessi hópur hefur átt gott samtal en við köllum okkur „Chairmen United for Ukraine“. Það voru svo kollegar mínir í Eystrasaltsríkjunum sem fylgdu þessu eftir,“ segir Bjarni.

Frá fundi Volodimír Selenskí með hópi formanna utanríkismálanefnda þjóðþinganna í …
Frá fundi Volodimír Selenskí með hópi formanna utanríkismálanefnda þjóðþinganna í Kænugarði í febrúar. Ljósmynd/president.gov.ua

Þurfum að geta tryggt öryggi Úkraínumanna

Bjarni hefur verið í miklu návígi við átökin í Úkraínu og aðra sem hafa verið í stuðningsneti þeirra sem verja hendur sínar þar.

„Mér fannst umræðan vera komin á þann stað að við ættum að bregðast með einhverjum hætti við ákalli Úkraínumanna. Það erum við að gera með ákalli okkar.

Annars vegar viljum við virða það að Úkraína hafi sjálfsákvörðunarrétt hvað sína framtíð varðar. Hins vegar getum við ekki horft upp á þessa stöðu og áframhaldandi óstöðugleika og að jafnvel þó þessu stríði myndi ljúka með einhverjum hætti ættum við von á að það geti brotist út stríð fljótlega aftur.

Við þurfum að geta tryggt öryggi Úkraínumanna, að það verði áfram stutt við bakið á þjóðinni og um leið komið á meiri stöðugleika og jafnvægi. Þannig verði hægt að undirbyggja frið og farsælli samskipti.”

Frá fundi formanna utanríkismálanefda þjóðþinganna og forsvarsmanna úkraínska þjóðþingsins í …
Frá fundi formanna utanríkismálanefda þjóðþinganna og forsvarsmanna úkraínska þjóðþingsins í sprengju­heldu fund­ar­her­bergi. Ljósmynd/Facebook/Bjarni Jónsson

Gott samstarf við vinaþjóðir mikilvægt

Bjarni er þingmaður Vinstri grænna en flokkurinn hefur haft á stefnuskrá sinni að standa utan hernaðarbandalaga. Lítur Bjarni á það sem einhverja þversögn að setja nafn sitt við ákallið?

„Ég hvorki skuldbind aðra eða lýsi skoðunum annarra en minna eigin með þessari táknrænu aðgerð. Ísland hefur almennt staðið vel við bakið á Úkraínu. Þessi tvö ár síðan ég var kosinn á þing hafa mótað mig og ég er ekki sami maður í dag. Ég er búinn að vera í öllum þessum samskiptum við allt þetta fólk og kynnast þessum aðstæðum algjörlega milliliðalaust.

Við erum í Atlantshafsbandalaginu og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og í ljósi stöðunnar og öryggishagsmuna okkar í dag sé ég ekki að annað sé á dagskrá. Eins finnst mér skipta miklu máli að eiga í góðu samstarfi við okkar vinaþjóðir,” segir Bjarni og vísar þar til fjölþátta ógna, netógna og nýrra ógna sem við stöndum frammi fyrir.

„Ég hef lagt áherslu á að okkar vinaþjóðir geti aðstoðað okkur að byggja upp eigin getu til að bregðast við frekari fjölþátta ógnum og að við öðlumst svo kallað stafrænt fullveldi.“

María Mesentseva, formaður þing­manna­nefnd­ar Úkraínu á Evr­ópuráðsþing­inu og Alicia Ke­arns, …
María Mesentseva, formaður þing­manna­nefnd­ar Úkraínu á Evr­ópuráðsþing­inu og Alicia Ke­arns, formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar breska þings­ins ásamt Bjarna á þing­pöll­un­um í úkraínska þing­inu. Ljósmynd/Facebook/Bjarni Jónsson

Fulltrúar stærstu þjóðanna með

Bjarni segir mikilvægt að kollegar sínir frá stærstu þjóðum Evrópu skuli setja nafn sitt við ákallið en formenn utanríkismálanefnda þjóðþinga Bretlands, Frakklands og Þýskalands settu nafn sitt við það.

„Þá setur formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings nafn sitt við ákallið sem er auðvitað mjög mikilvægt. Eins eru Norðmenn með en þeir hafa stigið varlega til jarðar í þessum efnum.“

Bjarni segir að samtalið hafi verið gott milli hans og bæði kollega hans á hinum norðurlöndunum sem og Bretlandi og víðar.

Hann segir að um leið og innrásin hófst hafi það svolítið verið viðbrögð þjóðþinganna og almennings sem ýttu við fulltrúum framkvæmdavaldsins. Segir hann að aftur sé þrýstingurinn ekki að koma að ofan. „Við viljum meina að við séum eins konar framlenging á vilja fólksins í þessum ríkjum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert