„Það er alveg sama hversu flókin staðan er, eða hversu alvarlegt vandamálið er. Svar sumra er alltaf Evrópusambandið.“
Þegar sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum sem fara nú fram á Alþingi. Umræðurnar skiptast í tvær umferðir og hefur hver þingflokkur átta mínútur í fyrri umferð og fimm mínútur í seinni umferð.
Áslaug hóf ræðu sína með dæmisögu um slöngur á Indlandi sem dæmi um hvernig inngrip stjórnvalda gegn vandamálum geti leitt til þess að vandamálið verði enn verra. Áslaug gerði þetta til að sýna fram á hvernig að sínu mati rangar eða of umfangsmiklar aðgerðir gegn verðbólgunni getur gert stöðuna verri en hún nú þegar er.
Í ræðu sinni teiknaði hún upp mynd af því þegar að kóbraslöngur urðu að plágu á Indlandi en þá gripu bresk stjórnvöld til þess að verðlauna þá sem skiluðu skinni af slöngu til yfirvalda.
Þetta leiddi til þess að óprúttnir aðilar hófu að rækta kóbraslöngur til að geta innheimt verðlaunin. Þar af leiðandi varð fjöldi kóbraslanga enn meiri en hann hafði verið áður en að stjórnvöld gripu til aðgerða.
Áslaug sagði að af þessari sögu væri hægt að draga mikinn lærdóm og tók þá fram að eðlilegt væri að krefjast aðgerða frá stjórnvöldum vegna verðbólgunnar og ítrekaði hún að ríkisstjórnin væri að huga sérstaklega að þeim heimilum sem lakast standa samhliða öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir að við festumst í vítahring verðbólgunnar.
„Það er kallað eftir frekari aðgerðum. Það er eðlilegt og við erum og munum grípa til þeirra. Það er samt vert að hafa í huga að svörin leynast ekki í skammtímahugsun og örvæntingarfullum afskiptum hins opinbera,“ sagði hún.
Áslaug tók síðan tvö dæmi um aðgerðir sem gætu orðið til hins verra þegar til lengri tíma er litið, skattahækkanir og Evrópusambandið.
„Það eru til þau sem trúa því að stjórnvöld geti valið sér feita og stóra bita af hlaðborði skattahækkana. Þetta er mantra stjórnmálamanna sem telja sig geta mætt erfiðum áskorunum í efnahagsmálum með annarra manna peningum. Í landi þar sem skattar eru nú þegar mjög háir.“
Hún ítrekaði þá að Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að hækka skatta og sagði mikilvægara að ríkið sýndi meira aðhald í útgjöldum áður en hún tók fyrir Evrópusambandið sem er ekki lausn við verðbólgunni að hennar mati.
„Það að ganga í Evrópusambandið eða taka upp nýjan gjaldmiðil er því engin töfralausn við núverandi stöðunni,“ sagði hún og bætti við að lífskjör hér á landi væru betri en í Evrópusambandinu.
Áslaug bætti síðan við að húsnæðisvandinn sem hefur skapast hér á landi væri einnig stórt vandamál sem þyrfti að taka á til að vinna bug á verðbólgunni. Hún nefndi að skipulag Reykjavíkurborgar og fjölgun komu fólks erlendis frá væru tvær meginástæður húsnæðisvandans.
„Reykjavíkurborg lagði upp með þá hugmyndafræði að skipuleggja nýja íbúðabyggð nánast eingöngu á þéttingarreitum. Lóðaverð margfaldaðist og verktakar neyddust til að byggja mun dýrara húsnæði en annars hefði risið.“
Þá tók hún fram að frá því að núverandi ríkisstjórn tók við hafa 39 þúsund manns flutt til landsins, sem nemur fjölda fólks í Kópavogsbæ. Hún bætti þá við að ef svo fer sem horfist bætast við 20 þúsund manns á næstu fjórum árum, sem nemur fjölda fólks á Akureyri.
Hún áréttaði þó að Ísland þarf á fleiri Íslendingum að halda og hrósaði íslensku samfélagi og ríkisstjórninni fyrir hvernig staðið hefur verið að því að taka á móti þeim mikla fjölda sem hingað hefur komið.
„En þegar við bætist heill Kópavogur og Akureyri á örfáum árum verðum við að staldra við. Aukningin í fjölda þeirra sem hingað koma er svo hröð að það reynir verulega á innviði. Erfitt er að finna húsnæði og álag í skólum og heilbrigðisþjónustu er orðið svo mikið að þjónustan er farin að líða fyrir það,“ sagði hún.
Hún sagði þá mikilvægt að forgangsraða fjármunum og byggja ekki upp kostnaðarsamt kerfi fyrir þá sem fá ekki vernd og ítrekaði að innviðir okkar væru komnir að þolmörkum.
„Erfiðlega gengur að finna húsnæði, það er bið eftir því að börn fái viðeigandi aðstoð í skóla, læri íslensku og sveitarfélög eiga erfitt með að sinna lögbundnum verkefnum.“
Áslaug tók þá fram að málefni útlendinga væru viðkvæm og snúin á þann máta að mögulega væri best að segja sem minnst til að það sé ekki snúið út úr því sem maður segir. Hún hélt þó áfram og sagði að það sem við ákveðum að gera verðum við að gera vel.
„Staðan er sú að fjölgunin getur ekki verið í þeim veldisvexti sem við höfum séð síðustu mánuði og misseri. Ef við ráðum ekki við verkefnið er voðinn vís. Hætta skapast á andúð og að í þessu litla landi myndist togstreita sem við viljum ekki.“
Í lok ræðu sinnar tók Áslaug fram að Ísland stæði nú á krossgötum en þá bæri að staldra við og vanda sig.
„Rétt eins og þegar Bretar lofuðu verðlaunafé fyrir Kóbraslöngurnar þurfum við að gæta þess að viðbrögð okkar skapi ekki annan vanda síðar. Ég hef meiri trú á íslensku samfélagi en svo að við eigum að láta glepjast af skammtíma reddingum, Evrópusambandinu eða skattahækkunum.
Ég trúi því að hér sé gott að búa og með langtímahugsun og yfirvegun munum við fara í gegnum þær áskoranir sem við okkur blasa og það er okkar sameiginlega verkefni.“