„Þetta er táknrænt og merkingin ræðst af viðbrögðunum annars staðar,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, varðandi ákvörðun utanríkisráðherra Íslands um að loka sendiráði Íslands í Moskvu.
Hann segir ákvörðunina ekki snúast um að slíta stjórnmálasamstarfi milli landanna, heldur sé þetta einhliða ákvörðun Íslands um að leggja niður starfsemi sendiráðsins í Moskvu. Í þeirri ákvörðun felist eiginlega tilmæli til Rússa um að gera slíkt hið sama hér á landi og kalla sendiherrann heim.
„En þau geta verið með aðra sendifulltrúa,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir ákvarðanir um að slíta stjórnmálasambandi gríðarlega stóra aðgerð, þar sem öllu samstarfi og samskiptum milli landa sé slitið og sendiherrar t.d. reknir úr landi, en það sé ekki tilfellið með aðgerðum utanríkisráðuneytisins.
Aðspurður hvort ákvörðun sendiráðsins sé í raun „kurteisileg“ leið til að reka sendiherrann úr landi segir Eiríkur ákvörðunina vera hálft skref.
„Þetta er svona hálft skref í staðinn fyrir heilt í þessa veru. Þetta þýðir að við getum tekið upp þráðinn á nýjan leik þegar að þannig árar,“ en Eiríkur bætir við að auðvitað sé ekki enn ráðið hver viðbrögð Rússa verði.
„Þeirra er mótleikurinn núna, þeir gætu náttúrulega brugðist við með því að slíta stjórnmálasambandinu,“ segir Eiríkur en hann kveðst ekki búast sérstaklega við því enda sé Rússland einfaldlega í of veikri stöðu alþjóðlega.
„Það er ekki hægt að lýsa þessu sem einhverskonar hugrakkri aðgerð, í þeirri merkingu að þetta geti haft einhverjar slæmar afleiðingar fyrir okkur, þetta er ekkert svoleiðis.“
Hann segir skilaboð Íslands feykilega sterk og ákvörðuninni vissulega óvanalega. Hann treysti sér þó ekki til að segja að hún sé fordæmalaus en segir ákvörðunina skref sem ekki öll lönd geti stigið.
„Diplómasía gengur út á það að ríki geri það sem þau geta, í þeirri stöðu sem þau eru í, og þetta er staðan sem við erum í.“
Eiríkur segir táknrænar ákvarðanir sem þessa vera leið fyrir Ísland til að beita sér í alþjóðasamfélaginu, enda hafi pólitískar ákvarðanir í litlu og herlausu landi ekki mikið vægi á alþjóðavísu. Ísland sé hins vegar í þeirri sérstöðu að geta tekið táknrænar ákvarðanir án afleiðinga sem hleypi af stað viðbrögðum annarra ríkja.
„Afleiðingarnar alþjóðlega eru mjög litlar en táknrænu skilaboðin geta samt sem áður komist til skila,“ segir Eiríkur „Þetta hefur í raun engin áhrif nema að það komi einhver dómínó-viðbrögð í kjölfarið,“ en hann kveðst ekki hafa heyrt af neinu slíku enn.
Utanríkisráðherra Úkraínu, lýsti ánægju sinni vegna ákvörðunar utanríkisráðherra á Twitter-reikningi sínum í dag og hvatti önnur ríki til að fylgja í fótspor Íslands.
Eiríkur segir deiluna stigmagnast ef stærri lönd eins og Bandaríkin eða Bretland taki sömu ákvörðun og Ísland, en segist ekki útiloka að önnur lönd fylgi í fótspor Íslands.
„Maður myndi ætla að utanríkisþjónustan, taki ekki svona skref án samráðs við önnur lönd. Það samrá getur náttúrulega hafa átt sér stað bakvið luktar dyr, og kann alveg að vera að það séu í farvatninu einhver eftirfylgni annars staðar,“ segir Eiríkur.