Rússneska utanríkisráðuneytið segir að „and-rússneskum aðgerðum ráðamanna í Reykjavík verði óhjákvæmilega svarað,“ í yfirlýsingu í dag.
Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að draga úr diplómatískum samskiptum við Rússland muni „eyðileggja allt samstarf Rússlands og Íslands.“ Fréttastofa Reuters greinir frá þessu.
"Við munum taka tillit til þessarar óvinsamlegu ákvörðunar þegar við byggjum upp tengsl okkar við Ísland í framtíðinni. Öllum and-rússneskum aðgerðum Reykjavíkur munu óhjákvæmilega fylgja samsvarandi viðbrögð," segir í yfirlýsingunni.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að leggja niður starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu frá 1. ágúst næstkomandi. Gert ráð fyrir að Rússar geri slíkt hið sama hér á landi og er til að mynda ætlast til þess að sendiherra Rússlands hætti störfum.
Tók Þórdís þó sérstaklega fram að Ísland hygðist ekki slíta pólitísku samstarfi við landið, heldur minnka umsvif í landinu þangað til forsendur yrðu aðrar.