Tillaga borgarstjóra um útfærslu á seinkun á upphafi skóladags grunnskóla í Reykjavík hefur verið samþykkt. Í tillögunni er skóla- og frístundasviði falið að leggja grunn að breiðu samráði um áhugaverðustu og bestu leiðir til að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur.
Í tillögunni segir að við útfærslu seinkunar upphafs skóladags verði horft til ólíkra valkosta og leiða sem í boði eru, þar á meðal til nýlegra rannsóknarniðurstaðna um áhrif á upphaf skóladags á svefn.
Sterkar forsendur eru fyrir seinkun upphafs skóladags grunnskólabarna og hefur hugmyndin nú þegar fengið talsverðan hljómgrunn hjá borgarstjórnarfulltrúum, sérfræðingum, kennurum og nemendum grunnskóla Reykjavíkur.
Sterkar forsendur eru fyrir seinkun upphafs skóladags grunnskólabarna og hefur hugmyndin nú þegar fengið talsverðan hljómgrunn hjá borgarstjórnarfulltrúum, sérfræðingum, kennurum og nemendum grunnskóla Reykjavíkur.
Í fundargerð borgarráðs koma fram sjónarmið tveggja áheyrnarfulltrúa sem lýsa stuðningi sínum við seinkunina. Borgarráðsfultrúi sósíalistaflokks Íslands bendir á stillingu klukkunnar á Íslandi og neikvæðar afleiðingar núverandi fyrirkomulags. „Þegar klukkan er 8:00 samkvæmt opinberum tíma hérlendis er hún í raun 7:00, og jafnvel má færa rök fyrir því að hún sé 06:00. Í raun lifa Íslendingar á vitlausum tíma sem hlýtur að hafa áhrif á svefngæði,“ segir í bókuninni.
Þá vísar áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins til svefnrannsókna sem sýnt hafi fram á áhrif svefns á heilsu barna og hvetur til þess að verkefninu verði hrint í framkvæmt við fyrsta tækifæri.
Við gerð tillögunnar var sérstaklega horft til nýlegrar íslenskrar rannsóknar sem kannaði áhrif seinkunar skóladags á klukkuþreytu barna á grunnskólaaldri. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á almenna ánægju bæði nemenda og kennara með seinni skólabyrjun.
Betri svefn unglinga í Reykjavík – áhrif seinkunar skólabyrjunar á svefn unglinga er heiti rannsóknarinnar sem höfð var til hliðsjónar við gerð tillögunnar. Rannsóknin, sem er meistaraverkefni Ágústu Dan Árnadóttur við Háskólann í Reykjavík, var unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg, Betri svefn og embætti landlæknis.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.