Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi ákvörðun sína, um að leggja niður starfsemina í sendiráði Íslands í Moskvu, á utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna í dag. Einnig var staða kvenna og stúlkna í Afganistan ofarlega á baugi á fundinum.
„Þótt Ísland sé eina ríki Norðurlanda sem ákveðið hefur að leggja niður starfsemina í sendiráði sínu í Moskvu hafa öll Norðurlöndin gripið til aðgerða gagnvart rússneskum diplómötum í höfuðborgum sínum,“ segir ráðherrann í tilkynningu.
Fundurinn fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Ísland gegnir formennsku í norrænni samvinnu í ár, þar á meðal í utanríkispólitísku samstarfi Norðurlandanna.
Þórdís Kolbrún segir það „gagnlegt að ræða hvernig hin norrænu ríkin nálgast samskiptin við Rússland en ekki síður var gott að finna þann stuðning sem ríkir um samstarf Norðurlanda við þessar aðstæður“.
Umræður um áframhaldandi stuðning Norðurlanda við Úkraínu voru jafnframt á dagskránni en líka var rætt um hvernig sporna megi við áróðri og upplýsingaóreiðu sem Rússar hafa skapað utan Vesturlanda.
Einnig var staða mannúðarmála í Afganistan ofarlega á baugi á fundinum. Rætt var um valdatöku talibana í landinu og þá skerðingu á réttindum kvenna og stúlkna sem hún hefur haft í för með sér.
Voru ráðherrarnir á einu máli um að Norðurlöndin yrðu að nota rödd sína og áhrif til að styðja við konur og stúlkur í Afganistan. „Hvað sem okkur kann að finnast um ömurleg stjórnvöld í landinu má fólkið þar ekki gleymast,“ segir Þórdís Kolbrún.