Ekki margar kvartanir í stóra samhenginu

Sigríður segir fljótt á litið að kvartanir séu færri í …
Sigríður segir fljótt á litið að kvartanir séu færri í ár en á sama tíma í fyrra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Strætó, segir í samtali við mbl.is að kvartanir til Strætó vegna framkomu vagnstjóra ekki vera margar í stóra samhenginu. Fljótt á litið stefni í færri kvartanir í ár en í fyrra.

Kvartanir vegna fram­komu vagnstjóra til Strætó fjölgaði um 74% frá árinu 2018 til ársins 2022. Alls voru kvartanir vegna framkomu strætóbílstjóra 560 talsins árið 2022. 

Innleiðing á Klappinu hafi gengið illa til að byrja með

Sigríður segir að líta þurfi á kvartanir farþega hlutfallslega miðað við fjölda ferða og notkun. „Í stóra samhenginu þá eru þetta ekki mjög margar kvartanir, en það eru um 450.000 ferðir á ári og hátt í 40.000 innstig á dag í vagna Strætó,"

Eitthvað hlýtur að valda svona mikilli aukningu?

„Það er búin að vera aukin notkun og öll flóra samfélagsins notar Strætó. Innleiðingin á Klappinu gekk líka brösuglega til að byrja með og tilfinningin er sú að í byrjun þegar Klappið var innleitt að þá gæti það hugsanlega hafa valdið því að fólk hafði samband og lýst yfir óánægju sinni með samskipti við vagnstjóra.“

Sumar ábendingar eigi ekki við rök að styðjast

„Við viljum að sjálfsögðu fá ábendingar ef eitthvað fer aflaga, og okkur finnst það ekki gott þegar það gerist. Einhverjar af þessum ábendingum eiga þó ekki við rök að styðjast en við tökum þetta allt til okkar.“

Eru þið að taka eftir aukningu á kvörtunum í ár?

„Nei, fljótt á litið fyrir fyrstu 4-5 mánuðina þá virðast vera færri kvartanir en á síðasta ári.“ Hún segir þetta þó með fyrirvara um það að tölurnar hafi ekki verið greindar og að margt geti breyst.

Streituvaldandi starf

Sigríður segir að starf rútubílstjóra geti oft verið streituvaldandi. „Auðvitað þurfa menn að setja sig í ákveðinn gír í þessu starfi og fyrir suma getur þetta reynst krefjandi,"

Hún segir að í nýliðaþjálfun sé farið yfir mikilvægi þess að halda ró sinni í starfinu og ítrekar að Strætó haldi vel utan um starfsmennina sína. Hún segir að alvarlegum ábendingum sé fylgt eftir og bílstjóri þá beðinn um að útskýra sína hlið á málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert