„Þetta er aðgerð gegn forvörnum. Forvörn númer eitt er að minnka aðgengi en aukið aðgengi þýðir í rauninni bara minni forvarnir. Ef Íslendingar vilja hafa forvarnir og hafa áhrif á magn áfengisdrykkju þá er aðgengisstýring aðalvopnið.“
Þetta segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi, í samtali við mbl.is um ákvörðun Costco um að bjóða upp á áfengissölu í netverslun sinni fyrir einstaklinga.
Eins og áður hefur verið greint frá virðist sem svo að margar innlendar verslanir ætli að feta í fótspor Costco og hefja áfengissölu á netinu en Hagkaup, Krónan og Nettó hafa sagt í samtali við mbl.is að búðirnar séu búnar að hefja undirbúning og íhugi að selja áfengi til almennings í netsölu.
Valgerður segir að aukið aðgengi að áfengi leiði alltaf til aukinnar neyslu á áfengi og ítrekar að áfengi sé engin venjuleg neysluvara heldur leiði með sér heilsuspillandi áhrif og aukna fíkn í áfengi.
„Það mun valda meiri vanda fyrir samfélagið. Ekki bara út af áfengisfíkn en líka vegna þess að áfengi hefur gífurlega mikil áhrif á heilsu. Það er aldrei hollt að drekka.“
Hún bendir á að á Íslandi hafi neysla áfengi aukist verulega undanfarin ár. Að hennar sögn hafa tilfelli lifrasjúkdóma vegna áfengisdrykkju áttfaldast á síðustu tuttugu árum.
„Þegar ég segi við stjórnmálamenn að þetta sé aðgerð gegn forvörnum. Verða þeir reiðir og segjast vera með forvörnum og tala um að þeir ætli að auka fræðslu og annað sem virkar ekki í hálfkvisti miðað við það að takmarka aðgengi.“
Hún tekur þá fram að ef það eigi að auka aðgengi að áfengi þurfi stjórnvöld að efla stofnanir sem eru til þess búnar að taka við afleiðingunum.
Spurð hvort að stjórnvöld þurfi að hafa lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi í enn frekara mæli í svona ákvörðunum svarar Valgerður því játandi og segir að lýðheilsa eigi að vega þyngst þegar það kemur að ákvörðunum er varða sölu á áfengi.