Telur nálægð við matvöru varasama

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Biskup Íslands telur það varasama þróun að áfengissala sé komin inn í matvöruverslun og að hægt verði að sækja áfengi á sunnudögum. Eins og fram hefur komið tilkynnti Costco um sölu áfengis í netverslun sinni og fer afhending fram í matvöruverslun fyrirtækisins í Kauptúni. Líka á sunnudögum. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari biskups við fyrirspurn mbl.is um fyrirhugaða afhendingu áfengis á sunnudögum í Costco. Samkvæmt áfengislögum er sala á helgidögum bönnuð og er sunnudagur skilgreindur sem helgidagur í helgidagalögum. 

Varasöm þróun 

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að aðgengi að áfengi þurfi markvissa og skynsamlega stýringu, líkt of við búum við með rekstri Vínbúðanna. Sú ákvörðun að færa áfengissölu nær matvöruverslun og bæta jafnvel við einum vikudegi er varasöm af mínu viti og svarar ekki kröfu samfélagsins um að styðja enn betur við áfengisvarnir og hlúa betur að þeim eru að leita sér aðstoðar við áfengisfíkn,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup.

Vendingar hafa verið á áfengismarkaði undanfarin ár.
Vendingar hafa verið á áfengismarkaði undanfarin ár. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Áfengisneysla í menningunni 

Hún segir þó ekki mega horfa framhjá áfengismenningunni. „Við vitum líka að áfengisneysla er hluti af menningu okkar á góðum dögum,“ segir Agnes. 

Engu að síður verði að hafa í huga að áfengisneysla geti verið mikil kvöl og víti í lífi einstaklinga og böl fyrir aðstandendur sem og heilu samfélögin. 

„Þetta vitum við. Í fjölda mörgum kirkjum og safnaðarheimilum um land allt fer fram AA starf alla daga vikunnar þar sem allskonar fólk úr öllu afkimum samfélagsins leitar sér aðstoðar við áfengisfíkn. Það er nefnilega svo að áfengisfíkn, líkt aðrir sjúkdómar fer ekki í manngreiningarálit. Þjóðkirkjan þekkir því vel ömurleika þessa sjúkdóms, styður við bak þeirra sem leita sér aðstoðar og fjölskyldum þeirra,“ segir Agnes. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka