Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hyggst beita sér fyrir breytingum á áfengislöggjöfinni á næsta þingi. Segir hann óþolandi að frekir markaðsaðilar hafi nýtt sér óljóst regluverk um netverslu til að stjórna því hvernig Íslendingar umgangist áfengi.
„Það þýðir ekki að berja höfðinu í stein. Þegar við erum með netverslun með áfengi sem er leyfð erlendis en má túlka sem svo að sé bönnuð hér heima þá þurfum við að búa til regluverk sem við erum sátt við. Sem tekur að einhverjum leyti á lýðheilsusjónarmiðum en tekur einnig mið af nýrri tækni og nýrri menningu,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segist því ekki á móti netverslun með áfengi en vilji skýrara regluverk. „Ég aðhyllist ekki hið óhefta frelsi en ég vil gjarnan setja regluverk í kringum þetta,“ segir Sigurður Ingi.
Hann telur það mikilvægt í ljósi þess að hvarvetna hafa sprottið upp netverslanir með áfengi í skjóli óvissu með regluverk.
„Mér finnst algjörlega óþolandi að einhverjir frekir aðilar á markaði stjórni regluverkinu og verklaginu með það hvernig Íslendingar umgangast áfengi eða aðra hluti,“ segir Sigurður.
Hann segir ótímabært að segja nánar til um útfærslu nýs regluverks. Það þurfi að skoða nánar.
Frumvarp Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, sem tekur á netverslun með áfengi fékk ekki framgöngu þegar það var kynnt í ríkisstjórninni í vetur. Sigurður Ingi segist ekki hafa verið viðstaddur þegar tekin var ákvörðun um að setja málið á bið. Hann kunni því ekki skýringar á því hvers vegna það var gert.
„Ég var ekki á fundinum og hef ekki lýst skoðun minni á þessu máli hingað til,“ segir Sigurður Ingi.
Helstu ástæður þess að frumvarpið var ekki samþykkt í ríkisstjórn er sögð afstaða Framsóknarflokks og Vinstri grænna til þess. Sigurður Ingi segir að svo geti vel verið.
„Það eru skiptar skoðanir innan þingflokksins og flokksins. Sumir vilja ganga mjög langt í lýðheilsuátt en aðrir ganga mjög langt í aukið frelsi í þessum efnum. Enda er Framsóknarflokkurinn miðjuflokkur og þar rúmast margar skoðanir,“ segir Sigurður Ingi.