Hótun kjarnorkuvopna merki um veikleika

Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og núverandi varaformaður rússneska öryggisráðsins, …
Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og núverandi varaformaður rússneska öryggisráðsins, hefur reglulega minnt á möguleika á beitingu kjarnavopna af hálfu Rússa. Albert Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, segist ekki hafa trú á slíkum hótunum. Samsett mynd

„Rússar hafa verið að láta skína í mögulega beitingu kjarnorkuvopna, Dmitrí Medvedev hefur reglulega verið að minna á þetta, en Pútín miklu síður,“ sagði Albert Jónsson sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum í samtali við mbl.is.

Albert var spurður álits á ummælum sem Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og núverandi varaformaður rússneska öryggisráðsins, hefur látið falla við ýmis tækifæri undanfarið þar sem hann hefur hótað Vesturlöndum öllu illu, m.a. beitingu kjarnorkuvopna.

„Pútín hefur þó verið að veifa slíkum vopnum árum saman, en það endurspeglar veikleika fyrst og fremst, því Rússarnir vita að her þeirra stendur langt að baki her Bandaríkjamanna. Ég veit ekki hvernig þeir hugsa þetta, en ég hef enga trú á þessum hótunum. Rússar eru í ógöngum í stíðinu í Úkraínu, nema að því leytinu til að þeir hafa náð undir sig 15 til 20% af landinu. Það er eina samningsstaða þeirra. Það verður mjög erfitt fyrir Úkraínu að reka þá úr landi, ég er ekki viss um að það muni takast. Það er þó rétt að bíða með slíkar vangaveltur þar til séð verður hvernig gagnsókn Úkraínumanna gengur,“ sagði Albert.

Hvar er rússneski flugherinn?

Albert segir áhugavert að skoða stöðu Rússana. „Hvar er rússneski flugherinn? Þeir hafa ekki einu sinni haft burði til að ráðast á aðflutningsleiðir hergagna frá Póllandi til Úkraínu. Ég sá um daginn bandarískan fyrrverandi hershöfðingja tjá sig um þetta og hann sagði að Rússar hreinlega gætu þetta ekki, flugherinn virðist vera ónýtur. Það sem ég og fleiri bjuggumst við var þeir myndu hefja samhæfðar hernaraðgerðir, þ.e. samræmdar aðgerðir flughers, skriðdreka, brynvarinna vagna og fótgönguliðs með örguggum aðflutningsleiðum til stuðnings, en þeir hafa ekki gert þetta. Her sem gerir þetta ekki, er ekki nútíma her,“ sagði Albert.

Gagnsóknar beðið

„Nú er þess beðið að Úkraínuher hefji gagnsókn sína sem er ekki hafin enn, þeir virðast vera að máta sig við verkefnið. Þegar gagnsóknin fer í gang munu þeir velja stað og stund og munu beita sínu liði til að brjótast í gegnum víglínuna. Þá mætir þeim jarðsprengjubelti og aðrar varnir og þeir verða berskjaldaðir á opnu landsvæði, á meðan Rússar eru sagðir hafa nóg af fallbyssum og stórskotaliðsbúnaði, en mannfall er venjulega mest í stórskotaliðsárásum. Við eigum eftir að sjá hvernig þetta gengur, en Úkraínumenn hafa möguleika á að ráðast á skotmörk að baki víglínunnar, flutningsleiðir, stjórnstöðvar o.fl., með vestrænum vopnum, svo sem HIMARS flugskeytum og á eigin flugvélum. Þegar gagnsóknin hefst munu Rússar væntanlega færa lið þangað og verða um leið skotmörk fyrir Úkraínumenn,“ sagði Albert.

Aldrei hægt að útiloka heimskulegar ákvarðanir

„Hvað varðar hótanir Medvedev, þá er auðvitað aldrei hægt að útiloka að teknar verði heimskulegar ákvarðanir. Hvað ættu kjarnorkuvopn að gera fyrir Rússa? Kjarnorkuvopn eru í raun gagnslaus nema til fælingar. Mitt mat er það að möguleikar Rússa til að stigmagna þessi átök fari hratt dvínandi. Þeir hafa möguleika á að hanga á stöðunni í Úkraínu og vona e.t.v. að Vesturlönd gefist upp á að styðja við Úkraínu. Stóra spurningin núna er sú hvers Úkraínumenn eru megnugir og hvort Rússarnir standast álagið,“ sagði Albert Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert