Körfuboltakörfur fjarlægðar af borginni 17. júní

Verktakar sem vinna fyrir Reykjavíkurborg mættu í dag og fjarlægðu …
Verktakar sem vinna fyrir Reykjavíkurborg mættu í dag og fjarlægðu körfurnar. Ljósmynd/Aðsend

Körfuboltakörfur við Seljaskóla voru fjarlægðar í dag af frumkvæði Reykjavíkurborgar vegna kvartana nágranna í grennd við skólan yfir hávaða frá ungmennum sem spila gjarnan körfubolta á skólalóðinni fram eftir kvöldi. 

Þetta segir Einar Guttormsson, íbúi við Seljaskóla í Breiðholti, í samtali við mbl.is en hann segist ósáttur með að nokkrar hávaða kvartanir skemmi fyrir þeim sem vilja njóta þess að spila körfubolta. Þetta er annað árið í röð sem að körfurnar eru fjarlægðar yfir sumarið.

Körfuboltinn aldrei truflað Einar

Körfuboltakörfurnar við Seljaskóla voru fjarlægðar í dag á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Körfuboltakörfurnar við Seljaskóla voru fjarlægðar í dag á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Hann bendir á að hann búi nærst körfuboltavellinum miðað við allra aðra í hverfinu og tekur fram að hávaði frá vellinum hafi nánast aldrei truflað hann né fjölskyldu hans.

„Ég reiknaði alveg með því að það yrði hávaði í kringum skólann annars hefði ég aldrei flutt þangað. Að því leytinu til finnst mér þetta mjög skrítið.“

Hann segir að skólalóðin hafi verið tekin í gegn fyrir fjórum árum síðan og að þá hafi körfuboltavellirnir verið settir upp. 

Bitnar á öðrum krökkum

„Það er oft stemming í kringum þessa körfuboltavelli. Það voru unglingar sem voru farnir að vera þarna fram á kvöld og kannski nótt með tónlist að spila körfubolta og kannski smá hávaði frá því.

Mér finnst það samt skjóta skökku við að eina leiðin til að fyrirbyggja það er að taka niður körfurnar því það er fullt af öðrum krökkum sem hafa verið að nota þessa körfuboltavelli og þetta bitnar bara á þeim.“

Aðspurður segir Einar ekki kannast við það að önnur aðferð hafi verið prufuð fyrst til að sporna gegn hávaðanum áður en gripið var til þess að fjarlægja körfurnar.

Borgarráð tók einhliða ákvörðun

Ljósmynd/Aðsend

„Ég skil alveg þá sem eru að kvarta. Einhverjir voru búnir að tala við húsvörðinn í skólanum sem sendi þetta til borgarráðs. Borgarráð tók síðan einhliða ákvörðun án þess að tala við íbúa hverfisins um það hvort það ætti að taka þetta niður eða ekki.“

Hann vonast til þess að það verði fundin lausn á þessu máli og tekur fram að ýmsir íbúar hafi sent erindi á borgarstjórn Reykjavíkur til að fá þessu breytt.

„Það var einhver verktaki fyrir borgina sem var að vinna í þessu í dag en það er mjög táknrænt að þetta sé tekið niður á sautjánda júní. Þetta er ekki beint eitthvað neyðartilfelli. Einmitt á þeim degi þegar allir eiga að vera úti að leika sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka