STEF, hagsmunarsamtök tón- og textahöfunda á Íslandi, er líklega það félag sem þekkir munaðarlaus verk hvað best, en á heimasíðu félagsins er að finna 34 blaðsíðna lista yfir munaðarlaus verk. Bragi Valdimar Skúlason, formaður stjórnar STEFs, segir listafólk verða að vera duglegt að sinna verkunum sínum.
STEF sér um að innheimta gjöld fyrir notkun tónlistar sem flutt er opinberlega, fyrir hönd tónhöfunda. Því sem er innheimt er síðan úthlutað til hlutaðeigandi rétthafa, innlendra sem erlendra, en úthlutunin fer fram á grundvelli upplýsinga um hvaða verk hafa verið flutt, t.d. í útvarpi, og styðst við skráningu verka í gagnagrunnum, eftir því sem hægt er.
Á málinu er frekar einföld skýring. Bragi segir lygilega mörg verk skráð hjá STEF á hverju ári. Það sé þó risavandamál að meta gögnin, það er að segja þegar frumskráningin er ekki rétt.
„Fólk verður að vera duglegt að sinna verkum sínum,“ sagði Bragi. Þegar lag er gefið út þá þarf að skrá það strax á heimasíðu STEFs til þess að hægt sé að greiða höfundum stefgjöld.
Í samtali við Braga benti blaðamaður honum á að lag Baggalúts, „Saman á ný“, væri skráð á listann. Þótti Braga það áhugavert og benti á að þarna væri líklega um misskráningu að ræða enda á hljómsveitin lag sem ber heitið „Saman við á ný“. Bragi telur fleiri lög á listanum lenda þar með svipuðum hætti og því sé mikilvægt að listamenn skoði listann og leiðrétti skráningar.
„Þetta getur skipt tugum króna,“ sagði Bragi en greina mátti glottið í gegnum símtólið.
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, segir einfalt mál að leiðrétta vitlausa skráningu. Hún segir lista yfir munaðarlaus lög byggja á bráðabirgðaskráningu, en þegar bráðabirgðaskráning stemmir ekki við aðal skráningu þá verði skráningin röng.
Vonast Guðrún til þess að birting listans ýti á eftir höfundum að fara í að skoða þessi mál. Hægt er að hafa samband við STEF til þess að skrá lögin rétt, hvort sem þau hafa verið vitlaus skráð eða ekki búið að frumskrá þau.
Félagar STEFs geta þó gert þetta á mínum síðum á heimasíðu STEFs.
Allt er þetta gert í samræmi við lög um umsýslu með höfundarétti, en STEF ber að leita að höfundum verka meðal annars á þennan hátt. Guðrún segir þó að þar sem Ísland er svo lítið, þá hafa þau í mörg ár átt auðvelt með að finna höfunda og gera það enn, sérstaklega þegar verk er komið með margar spilanir.