Svona er pólitíkin

Guðrún Hafsteinsdóttir, Bjarni Benediktsson og Jón Gunnarsson fyrir utan Valhöll …
Guðrún Hafsteinsdóttir, Bjarni Benediktsson og Jón Gunnarsson fyrir utan Valhöll í dag. Samsett mynd

Á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag voru samþykkt áform Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að Guðrún Hafsteinsdóttir tæki við sæti Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.

Boðað hefur verið til ríkisráðsfundar á Bessastöðum á morgun þar sem ráðherraskiptin fara fram og mun Guðrún þá taka sæti í ríkisstjórn í stað Jóns.

Flaggar framtíðarsýninni ekki strax

Guðrún sagðist mjög sátt við ákvörðunina eftir að fundinum lauk í dag. Hún mun fylgja stefnu flokksins og halda áfram með þau mál sem Jón hefur verið að vinna að. Aðspurð sagði Guðrún þá ekkert ákveðið með framhaldið.

„Nú er ég bara á leiðinni í ráðuneytið að kynna mér hvernig staðan er og svo sjáum við til hvernig framhaldið verður,“ sagði Guðrún.

Eru með einhverja framtíðarsýn um breytingar í huga?

„Jú jú vitaskuld er maður með ákveðna framtíðarsýn. Ég ætla aðeins að fá að setjast niður með mínu fólki og ráðuneytinu áður en ég flagga því öllu,“ sagði Guðrún.

Konur í fyrsta skipti í meirihluta

Bjarni sagðist finna það meðal flokksmanna og í samfélaginu hversu miklu grettistaki Jón hafi lyft í sínum störfum.

Hann sagði breytingarnar þó vera þær sem staðið hafi verið til að gera frá upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins.

„Guðrún Hafsteinsdóttir, sem er fyrsti þingmaðurinn okkar í Suðurkjördæmi, kemur inn í ríkisstjórnina. Þetta eru því ekki bara tímamót fyrir þessa stjórn heldur líka fyrir flokkinn en við erum að fá inn öflugan leiðtoga. Við erum með marga leiðtoga í þingflokknum og við viljum skipta með okkur verkum,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði þetta einnig merkilegt í ljósi þess að nú sé flokkurinn í fyrsta skipti með þrjár konur á móti tveimur körlum í stjórninni.

Að sögn Bjarna verður Jón áfram með í baráttunni, reynslunni ríkari og með gríðarlega mikinn stuðning úr samfélaginu og frá flokksmönnum.

Hverju áttu von á að þessar breytingar skili?

„Þingmaður fær tækifæri til þess að láta til sín taka í ráðuneytinu. Það fylgja alltaf einhverjar áherslubreytingar. En við höfum verið mjög samstíga um þær breytingar sem að Jón hefur verið að fylgja og þetta skilar auðvitað bara svona ákveðinni hreyfingu. Það má segja að í þessu felist líka ákveðin tímamót hvað Suðurkjördæmið snertir, það hefur verið mjög mikið ákall frá flokksmönnum í Suðurkjördæmi að fá sinn fulltrúa í ríkisstjórn, að öðru leyti á ég ekki von á neinum róttækum breytingum,“ sagði Bjarni.

Byrjar sitt 17. ár í þingmennsku

Jón sagði að vel hafi gengið í ráðuneytinu og þar hafi miklu verið áorkað. Hann hefði þó vilja fá að sitja áfram sem ráðherra enda mörg verkefni í miðri á.

„En svona er bara pólitíkin,“ sagði Jón.

Hvað tekur við hjá þér?

„Nú er ég bara orðinn þingmaður, ég kann það. Ég hef verið áður þingmaður og er að byrja mitt 17. ár í þingmennsku,“ sagði Jón.

Aðspurður hvort að hann hygðist beita sér fyrir einhverju sérstöku á næsta þingi sagðist Jón ekkert sérstaklega ætla að beita sér fyrir einu umfram annað.

„Það eru mörg krefjandi mál sem bíða, hvort sem það er á vettvangi dómsmálaráðuneytisins eða annars staðar, enda miklir hagsmunir í húfi,“ sagði Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert