Körfurnar ættu að fara aftur upp sem fyrst

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að borgarráð hafi …
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að borgarráð hafi tekið ákvörðun um að fjarlægja körfuboltakörfurnar yfir sumarið fyrir um tveimur árum, það er á síðasta kjörtímabili. Samsett mynd

Körfuboltakörfur við Seljaskóla voru fjarlægðar sl. laugardag, þann 17. júní, að frumkvæði Reykjavíkurborgar, vegna kvartana íbúa í grennd við skólann yfir hávaða frá ungmennum á körfuboltavellinum. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að borgarráð hafi ekki tekið neina ákvörðun um að fjarlægja körfuboltakörfurnar. Sjálfur hafi hann ekki vitað af málinu fyrr en nú. Þá kannast hvorki formaður skóla- og frístundasviðs né sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar við það að hafa fengið málið á sitt borð.

„Ég myndi helst vilja að þessar körfur færu upp sem fyrst,“ segir Einar Þorsteinsson og bætir við að hægt ætti að vera að leysa málið í góðri samvinnu við bæði íbúana og krakka í hverfinu. Hann hafi þó skilning á því að hávaðinn valdi óþægindum.

Einar nefnir að umræða hafi skapast um að einstaklingar hafi keyrt bílum inn á völlinn með tónlistina í botni. „Það er hjúkrunarheimili þarna rétt hjá og þetta getur valdið óþægindum fyrir íbúa.“

Einar hefur óskað eftir svörum frá Reykjavíkurborg um það hver staðan á málinu sé. „Sem íbúi hér finnst mér mikilvægt að fá skýringar á því hvernig þetta mál er vaxið og hvaðan kvartanir hafa borist. Einnig vantar upplýsingar um það af hverju ekki var hægt að grípa til einhverra annarra ráðstafana eða setja reglur um t.d. að ekki megi spila háværa tónlist þar langt fram á nóttu. Þetta þarf ekki að vera svona stíft heldur þarf bara að setja einhverjar reglur um þetta. Ég myndi helst vilja að börnin fengju að leika sér í körfubolta á vellinum í sumar.“

Þá könnuðust hvorki Skúli Helgason, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráð, né Eiríkur Björn Björgvinsson sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar við að hafa fengið málið á sitt borð. Sögðust þeir báðir í samtali við Morgunblaðið ætla að leita skýringa á málinu strax eftir helgi. Taldi Eiríkur líkur á því að málið hefði farið í gegnum eignasjóð Reykjavíkurborgar.

Uppfært 08:40:

Í fréttinni stóð upprunalega að borgarráð hafi tekið ákvörðun um að láta fjarlægja körfurnar fyrir tveimur árum. Hið rétta er að engin ákvörðun var tekin þess efnis innan borgarráðs þar sem slíkar ákvarðanir eru ekki teknar innan ráðsins. 

Þá sagði að Skúli Helgason væri formaður skóla- og frí­stundaráðs. Hið rétta er að hann er formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert