Á Árbæjarsafni hefur síðastliðin sjö ár staðið yfir skemmtilegt verkefni sem ber yfirskriftina „Fornar rætur Árbæjar.“ Um er að ræða fornleifarannsókn með það að markmiði að varpa ljósi á búsetusögu og þróun Árbæjar, auk þess að miðla fornleifafræði og niðurstöðum rannsóknarinnar til almennings.
Frá því að farið var af stað með verkefnið hefur mikil og merkileg saga komið í ljós. Sólrún Inga Traustadóttir stjórnandi verkefnisins stóð í liðinni vikunni fyrir göngu fyrir gesti og gangandi um uppgraftarsvæðin á bæjarstæði Árbæjar, ásamt Björk Magnúsdóttur fornleifafræðingi.
Blaðamaður mbl.is var svo heppinn að fá að fara með í gönguna og varð þar margs fróðari.
Gengið var af stað frá inngangi Árbæjarsafnsins eftir gömlu þjóðleiðinni að uppgraftarsvæði B, þar sem unnið hefur verið að því að grafa upp gamlan öskuhaug. Í öskuhaugnum hefur ýmislegt fundist, meðal annars gamall borðbúnaður sem ber þess merki að hafa verið mjög dýr. Gestir í göngunni fengu að virða hlutina fyrir sér og spyrja spurninga.
Einn gestanna spurði til að mynda hvort hefði verið flokkað til forna? Sólrún sagði svo ekki hafa verið, en við uppgröftinn hafi þau þó tekið eftir því að ekki væri mikið um dýrabein í öskuhaugnum. Gat hún þó ekki svarað því hvort það væri vegna þess að dýrabein hafi verið betur nýtt í þá daga, eða hvort þeim hafi verið komið fyrir annarstaðar.
Því næst var gengið að uppgraftarsvæði við bæjarhólinn, eða uppgraftarsvæði A. Þar sem jafnframt kennir ýmissa grasa, en á uppgraftarsvæðinu hafa fundist ýmis mannvirki. Meðal merkja um mannvirki sem þar hafa fundist er veggur með landnámsgjósku, hann gæti því verið frá 9. eða 10. öld. Eins hefur fundist þar eldstæði sem líklega er frá svipuðum tíma.
Uppgröfturinn ber þess merki að byggð gæti hafa verið á svæðinu frá landnámi. Spurningin er þó hvort fólk hafi sest þarna að og hvort þarna hafi verið búseta samfleytt frá frá því fyrstu menn settust að á bæjarhólnum.
Elstu rituðu heimildirnar um Árbæ eru frá því á 15. öld, nú eru að sögn Sólrúnar áþreifanlegar sannanir um að sagan sé lengri. Það verður því spennandi að fylgjast áfram með verkefninu.
Aðspurð hvort að til standi að grafa meira upp á svæðinu segir Sólrún það ekki ákveðið, enn eigi eftir að klára að rannsaka þau svæði sem nú eru opin.
Sett hefur verið upp sýning um rannsóknina í safnhúsinu Landakoti, eða ÍR húsinu á Árbæjarsafninu. Þar er bæði hægt að skoða fornminjagripi og teikningar og ljósmyndir af vinnunni auk verkfæranna sem notuð eru við uppgröftinn.
Í maí á næsta ári verður síðan haldið áfram að rannsaka svæðið og þá er hægt að koma og sjá fornleifafræðinga og nema að störfum. Þá gerir Sólrún jafnframt ráð fyrir að vera með aðra göngu að ári.
Ekki er algengt að farið sé í vísindarannsókn af þessu tagi í Reykjavík nema fyrir tilstilli framkvæmda að sögn Sólrúnar. Það gefur þó þeim sem að rannsókninni koma, meiri tíma til þess að kanna svæðið, auk tækifæris til þess að bjóða nemum í fornleifafræði og á jarðvísindadeild upp á námskeið í fornleifarannsókn á vettvangi.
Elstu rituðu heimildirnar um Árbæ eru frá því á 15. öld, nú eru að sögn Sólrúnar áþreifanlegar sannanir um að sagan sé lengri. Það verður því spennandi að fylgjast áfram með verkefninu.
Aðspurð hvort að til standi að grafa meira upp á svæðinu segir Sólrún það ekki ákveðið, enn eigi eftir að klára að rannsaka þau svæði sem nú eru opin