Þrjár hátíðir tóku við einni

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir lagði blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar for­seta …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir lagði blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar for­seta og Ingi­bjarg­ar Ein­ars­dótt­ur á þjóðhátíðardaginn. mbl.is/Óttar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, segir þrjár hátíðir í Reykjavík yfir sumarmánuðina hafa tekið við því sem einu sinni hafi verið ein hátíð 17. júní. 

Egill Helgason fjölmiðlamaður var einn þeirra sem gagnrýndi hátíðarhöldin í borginni á laugardaginn. Hann sagði meðal annars á Facebook-síðu sinni að það væri eins og að borgarstjórninni þætti ekki vænt um 17. júní, hátíðin væri bara haldin af skyldurækni.

„Borgarstjórn þykir mjög vænt um 17. júní af mörgum ástæðum og heldur hann mjög hátíðlegan og leggur mikinn kapp um það að gera hann skemmtilegan og fjölbreytilegan, kannski sérstaklega með tilliti til barna og fjölskyldufólks,“ segir Þórdís Lóa í samtali við mbl.is.

Aftur áherslur á miðborgina

„Undanfarin ár höfum við skipt þessu sérstaklega upp í hverfin og þá hefur kannski verið minna af hátíðaröldum á Covid-árunum í miðborginni,“ segir Þórdís Lóa.

Hún segir að mikil ánægja hafi verið í hverfunum um það fyrirkomulag en sitt sýnist hverjum hvað sé best.

„Í ár var áherslan sérstaklega lögð á miðborgina og á minni viðburði inni í hverfunum,“ segir Þórdís Lóa og segir vel hafa tekist.

Þórdís Lóa segir rétt munað að á þjóðhátíðardeginum hafi áður verið lögð meiri áhersla á tónleikahátíðarhöld en nú.

„Borgin er búin að skipta um áherslur og það er ekki nýtt. Það var gert þegar borgin ákvað það að vera með ákveðna fasta menningarviðburði yfir sumarið. Þeir eru þá ólíkir,“ segir Þórdís Lóa.

Fjölskyldan í fyrirrúmi 17. júní

Á þjóðhátíðardaginn er sérstaklega hugsað um fjölskylduna og öll hátíðarhöld miðiar að fjölskyldufólki, börnum og hverfum, að sögn Þórdísar.

„Síðan setjum við mikið fútt í, ásamt hinsegin samfélaginu, í Reykjavík Pride, og þá breytist borgin í mannréttindabaráttu og stuð og stemmningu og mikil tónleikahöld,“ segir Þórdís Lóa.

Svo þegar líða tekur á ágúst er Menningarnótt þriðja útgáfan af hátíð.

„Þar leggjum við áherslu á menningu og listir og höldum okkur áfram í tónlistinni. Þá verður næturlífið kannski aðeins meiri partur af þessu heldur en er á 17. júní, til dæmis,“ segir Þórdís Lóa.

„Þessar þrjár hátíðir eru í rauninni það sem hér áður fyrr var á 17. júní í einni hátíð.“

Hátíðirnar geta ekki allar verið eins

„Borgarstjórn þykir vænt um allar þessar hátíðir og þær eru allar mismunandi og eiga að vera mismundi. Við hins vegar sem samfélag getum alveg breytt þessum hátíðum eins og 17. júní,“ segir Þórdís Lóa.

Vitnar hún þá í umræðu um það hvort Íslendingar ættu að vera þjóðlegri 17. júní að fyrirmynd Normanna.

„Mér finnst það alveg skemmtileg spurning,“ segir Þórdís Lóa.

„Það geta ekki allar hátíðir verið eins. Það verður hver og ein að hafa sinn sjarma,“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert