„Er ekki eðlilegt að hún leggi meira af mörkum?“

Frá blaðamannafundi fyrr í dag þar sem skýrsla OECD var …
Frá blaðamannafundi fyrr í dag þar sem skýrsla OECD var kynnt. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir ferðaþjónustuna gríðarlega mikilvæga fyrir Ísland en spyr þó hvort ekki sé eðlilegt að hún leggi meira af mörkum hvað varðar greiðslu skatta. 

Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um íslenskt efnahagslíf, sem kynnt var í morgun, er mælt fyrir því að skattaundanþágur ferðaþjónustunnar verði afnumdar og atvinnugreinin færð í almenna virðisaukaskattsþrepið. Þá sagði Mathias Cormann, framkvæmdastjóri OECD, á blaðamannafundi í morgun að Ísland nálgist þolmörk hvað varðar sjálfbærni í ferðaþjónustunni. 

„Ferðaþjónustan er að valda álagi á marga innviði okkar, meðal annars heilbrigðiskerfið, samgöngukerfið, vegi og brýr, líka auðvitað umhverfið og náttúruna. Spurningin er: Er ekki eðlilegt að hún leggi meira af mörkum? Það er í rauninni það sem OECD er að leggja til í þessari skýrslu,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is eftir fundinn.

Hann ítrekar þó að enn hafi engin ákvörðun verið tekin í þessum málum.

„Við þurfum að horfa á þetta – að hve miklu leyti ferðaþjónustan borgar til samfélagsins til þess að geta staðið undir álagi sem ferðamenn eru að veita á kerfin okkar. Það er bara verkefni sem þarf að leggjast yfir með hvaða hætti sú atvinnugrein borgar með sanngjörnum hætti fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar, bara rétt eins og sjávarútvegurinn eða aðrar atvinnugreinar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert