Ámundi Ámundason, sem var einn þekktasti umboðsmaður og plötuútgefandi landsins á áttunda áratug síðustu aldar, lést 14. júní sl. á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík, 78 ára að aldri.
Ámundi fæddist í Reykjavík 14. maí 1945. Foreldrar hans voru Ámundi Halldórs Ámundason, verkamaður frá Bolungarvík, og Alda Kristrún Jónsdóttir, verkakona frá Hafnarfirði. Þau skildu. Seinni maður Öldu var Jóhann Sölvason frá Siglufirði.
Ámundi ólst upp í Meðalholti og byrjaði ungur í sjómennsku en fljótlega hóf hann einnig að starfa sem umboðsmaður hljómsveita eins og Hljóma, Hauka og Dúmbó og Steina. Þá gaf hann út hljómplötur undir merkjum ÁÁ-Records og markaði meðal annars upphaf útgáfusögu Stuðmanna og Jóhanns G. Jóhannssonar. Alls komu út um fjörutíu titlar undir útgáfumerki Ámunda.
Ámundi tók virkan þátt í starfi Alþýðuflokksins og var framkvæmdastjóri flokksins um tíma. Hann var einnig öflugur sölumaður og starfaði við auglýsingasölu á Alþýðublaðinu, Degi, DV og Fréttablaðinu, ásamt því að gefa út landsmálablöðin Akureyri vikublað, Reykjavík vikublað, Hafnarfjörð, Reykjanes, Austurland, Vestfirði, Suðurland og Vesturland. Að auki gaf hann út Iðnaðarblaðið og Ölduna.
Börn Ámunda eru Agnes Ýr Thorláksdóttir, Jónína Ámundadóttir, Sigríður Birna Bragadóttir, Ámundi Steinar Ámundason og Katrín Alda Ámundadóttir.