Getum sjálfum okkur um kennt

Nauðsynlegt er að vekja athygli á viðkvæmri stöðu íslenskunnar að …
Nauðsynlegt er að vekja athygli á viðkvæmri stöðu íslenskunnar að mati Láru og Eiríks. Samsett mynd

„Það að vilja gera íslenskunni hærra undir höfði tengist á engan hátt útlendingaandúð, bara alls ekki,“ segir fjölmiðlakonan Lára Ómarsdóttir sem birti pistil á Facebook í gær sem hlotið hefur gríðarlega athygli og verið deilt af yfir 500 manns.

Í pistlinum rekur Lára ferðasögu sína, meðal annars til Þýskalands, Spánar og Frakklands og vekur athygli á því að í öllum þessum löndum sé móðurmálið fyrst og fremst notað áður en gripið sé til annarra tungumála:

„Matseðlar eru á móðurmálinu, staðarheiti, nöfn verslana og veitingastaða eru á móðurmálinu og leiðbeiningarskilti á götum og flugvöllum eru á móðurmálinu og svo á ensku næst.“

„Mér finnst að við eigum að setja þetta svona fram hjá okkur. Við eigum að leggja áherslu á að kenna fólki að tala íslensku. Ég er að tala um að nota íslensku fyrst en það er allt í lagi að svissa síðan yfir í ensku, byrja á því að bjóða góðan daginn og ef viðkomandi kann ekki að segja góðan daginn þá er hægt að skipta yfir á annað tungumál ef þér finnst það þægilegt. Þetta á ekkert skylt við útlendingaandúð, ekki neitt,“ segir Lára í samtali við mbl.is. 

Enskan sést víða á götum borgarinnar.
Enskan sést víða á götum borgarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fara verður varlega í umræðuna

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, birti í gær færslu á facebooksíðu sinni Málspjall. Þar segist Eiríkur sammála Láru um að varðveita þurfi íslenskuna og setja hana í fyrsta sæti en fara verði varlega í alla umræðu til að forðast útlendingaandúð:

„Hér hefur undanfarna daga og einkum í dag verið mikil umræða um óþarfa og óeðlilega enskunotkun á Íslandi. Ég er sammála flestu sem hefur verið sagt í innleggjum um þetta mál og hef í einhverjum tilvikum átt frumkvæði að umræðunni eða tekið þátt í henni. Þessi umræða er eðlileg og mikilvæg – en hún er líka mjög viðkvæm og vandasöm og getur auðveldlega leiðst út á hættulega braut þjóðrembu og útlendingaandúðar."

Ekki verið að amast við útlendingum

„Ég er algjörlega sammála öllu sem Lára segir, ummælin mín voru einmitt hugsuð sem viðbót við það en ekki sem andmæli,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is og bætir því við að til að forðast að umræðan snúist upp í andhverfu sína sé mikilvægt að taka fram að áhyggjur af íslenskunni tengist ekki útlendingaandúð.

„Með þessu er ekki verið að amast við útlendingum eða enskunotkun yfirleitt þar sem hún á rétt á sér heldur er verið að tala um þessa óþörfu enskunotkun og þetta meðvitundarleysi okkar gagnvart þessu.“

Auglýsingaskilti í Bankastræti.
Auglýsingaskilti í Bankastræti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta er okkur sjálfum að kenna

Þá tekur Eiríkur undir þær vangaveltur blaðamanns hvort ástandið sé ekki okkur sjálfum að kenna þar sem útlendingarnir sem hingað koma geri ekki endilega kröfur um að enskan sé allsráðandi.

„Jú, það er nefnilega það og einmitt það sem Lára benti á líka. Við eigum að gera miklu meira af því að halda íslensku að útlendingum því þeir hafa ekkert á móti því. Þegar þeir koma til framandi lands þá vilja þeir kynnast menningu þess og þar á meðal tungumálinu.“

Eiríkur bendir einnig á að það sé alls ekki þannig að allir erlendir ferðamenn sem hingað koma tali eða skilji ensku.

„Þannig að ef við höldum að við séum að gera útlendingum einhvern sérstakan greiða með því að hafa allt á ensku, það er bara meira og minna misskilningur. Ég tel að fræðsla, vitundaravakning og jákvæðni skili okkur lengst. Ef fólk vill viðhalda íslenskunni, sem ég held að við viljum flest, þá verður það ekki gert með lögum, það verður að koma frá þjóðinni sjálfri,“ segir Eiríkur og bætir því við að það sé mjög mikilvægt að vekja athygli á þessu líkt og Lára gerði í pistli sínum.

„Þetta er eðlileg og mikilvæg umræða, það má alls ekki draga úr henni eða ýta henni til hliðar. Við verðum að þora að stíga fram og ræða þessi mál. Ef við forðumst að ræða einhver vandasöm og mikilvæg mál og sópum þeim bara undir teppi, þá fáum við það bara í bakið á okkur.“

Að sögn Láru og Eiríks þurfum við að snúa þróuninni …
Að sögn Láru og Eiríks þurfum við að snúa þróuninni við og setja íslenskuna aftur í fyrsta sæti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Algjört hugsunarleysi

Spurð að því hvort enskunotkunin hér á landi tengist einhverri minnimáttarkennd í þjóðinni eða því að við séum að reyna að þóknast útlendingum sem hér búa eða hingað koma telur Lára það alls ekki vera svo.

„Nei, alls ekki. Þetta tengist hvorugu, þetta er ekki minnimáttarkennd og þetta er ekki það að við séum að þóknast einum né neinum. Þetta er aðallega markaðssetning og við vitum að fólki finnst erfitt að læra íslensku. Við vitum að tungumálið okkar er skrýtið, með skrýtna stafi og með löngum orðum þannig að ég held að við höfum bara fallið í þá gryfju í einhverju hugsunarleysi að halda að það væri auðveldara fyrir ferðamenn og þá sem hingað koma að hafa allt á ensku,“ svarar hún. 

Þá telur Lára slíkt hugsunarleysi valda því að við gleymum áhrifunum sem þetta getur haft í framtíðinni.

„Hættan er sú að við týnum okkar eigin tungumáli. Þetta er ekki meðvituð ákvörðun held ég. Ég er bara að biðja fólk um að staldra aðeins við og hugsa hvort við ættum ekki að fara að snúa þessari þróun aðeins við. Setjum íslenskuna fyrst og bjóðum að sjálfsögðu fólki upp á ensku, frönsku, dönsku, þýsku eða hvaða tungumál sem er með. Við verðum að setja íslenskuna í öndvegi ef við ætlum ekki að glata henni. Þetta snýst allt um meðvitund.“

Enn eitt auglýsingaskiltið í miðbæ Reykjavíkur á ensku.
Enn eitt auglýsingaskiltið í miðbæ Reykjavíkur á ensku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki of seint að grípa í taumana

Lára hefur fulla trú á því að hægt sé að snúa þessari þróun við hér á landi og það sé síður en svo orðið of seint.

„Við getum það léttilega. Það er engin spurning í mínum huga. Þetta snýst bara um að við séum meðvituð um þetta. Ég held að ferðamaðurinn hefði bara gaman að því að spreyta sig á því að lesa matseðil á íslensku sem er svo með ensku letri fyrir neðan. Mér finnst til dæmis mjög gaman að lesa franska matseðla og reyna að ráða fram úr þeim.“

Þá tekur Lára það skýrt fram að það megi alls ekki skilja pistil hennar á þann veg að hún sé að gera kröfu á að allir skilji eða tali íslensku.

„Það er óraunhæf krafa því það tekur tíma að læra íslensku en það er hins vegar auðvelt að læra að segja góðan dag, gott kvöld og bless. Mér finnst bara að við sem kunnum íslensku megum nota hana meira, byrja á því að bjóða góðan daginn á móðurmálinu og frekar skipta um tungumál ef viðkomandi skilur mann ekki.“

Bjóst engan veginn við þessum viðbrögðum

Spurð að því hvort hún hyggist nýta meðbyrinn sem færsla hennar hefur fengið til að beita sér enn frekar fyrir þessum málstað segist Lára ekki hafa hugsað svo langt.

„Ég var nú ekki svo útsjónarsöm. Þetta voru bara vangaveltur eftir þetta ferðalag og ég átti engan veginn von á því að þetta hlyti svona mikla athygli, ég verð að viðurkenna það. Þannig að ég er nú ekki komin svona langt að hugsa þetta svona. Ég hef náttúrulega gert sjónvarpsþætti um land og þjóð og þetta er bara partur af menningunni okkar. Við erum aðeins búin að missa tökin en við getum snúið þessu við,“ segir hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert