Friðrik hvumsa yfir Prígosjín

Friðrik Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, í grósku í …
Friðrik Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, í grósku í fyrra. Hann segir eitthvað dýpra búa að baki atburðarásinni í Rússlandi í dag en það sem fram hefur komið. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður er bara hvumsa, er það ekki gott íslenskt orð?“ spyr Friðrik Jónsson, sérfræðingur á sviði öryggis- og varnarmála, þegar mbl.is innir hann eftir væringum í Rússlandi síðasta sólarhringinn og skyndilegri uppreisn Wagner-málaliðasveita Jevgenís Prígosjíns, hins svokallaða kokks Pútíns, sem nú virðast hreinlega fyrirgefnar. Eða hvað?

„Þetta er óneitanlega mjög sérkennilegt – og að Prígosjín eigi að vera að fara til Hvíta-Rússlands, hér er eitthvað meira og dýpra á bak við, þarna er eitthvað sem gengur ekki upp og ég held að við höfum ekki séð þessa skák leikna til enda,“ heldur Friðrik áfram og er að fá sér ís í London meðan á viðtali stendur.

Hversu afleitar verða afleiðingarnar?

„Við skulum bara bíða og sjá hvað næstu dagar bera í skauti sér. Ég er þeirrar skoðunar að öll þessi uppákoma hafi verið vond fyrir Pútín. Það er spurning hvaða afleiðingar hún hafi til lengri tíma, hvaða áhrif hún hafi á baráttuandann Rússamegin í Úkraínu en það er engin leið að sjá neitt jákvætt út úr þessari atburðarás, ekki fyrir Rússland, ekki fyrir Pútín og ekki fyrir rússneska herinn,“ segir Friðrik.

Kveður hann frekar ástæðu til að spyrja út í afleiðingarnar, hversu afleitar þeir verði og á hve löngum tíma þær komi fram. „Þú sérð það að allir greinendur eru mjög hugsi og menn eru að spyrja sig hvað hér sé að gerast á bak við tjöldin. Við eigum eftir að sjá það mjög líklega á næstu dögum og vikum hvernig spilast úr þessu.“

Hvers vegna stoppaði Prígosjín?

Á Prígosjín sér þá viðreisnar von í ranni Pútíns forseta?

„Það er góð spurning. Í morgun segir Pútín að hann sé eftirlýstur föðurlandssvikari og svo síðdegis er honum fyrirgefið og allar kærur felldar niður, hann flytur bara til Hvíta-Rússlands. Er hann að fara í útlegð? Það sem er sagt opinberlega í Rússlandi er ekki endilega það sem er að gerast, á næstu dögum á það eftir að leka út hvað raunverulega var í gangi hérna, þetta er bara eins og með Erdogan [Tyrklandsforseta] 2016, þegar herinn fór af stað með miklum látum og svo rann það bara allt út í sandinn á mjög stuttum tíma. Hvað gerði það að verkum að Prígosjín stoppaði bara allt í einu í dag?“ spyr Friðrik Jónsson að lokum og vantar þar með bara eina spurningu upp á að hafa spurt fleiri spurninga en blaðamaður í þessu viðtali.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert