„Þetta er mikið áfall og álitshnekkir fyrir Pútín, þetta veikir hann mjög mikið. Það eru að ég ímynda mér mikilvægir aðilar í stjórnkerfinu, í elítunum, sem ekki munu sjá hann í sama ljósi og áður en hingað til hefur Pútín verið sá sem er límið í öllu,“ segir Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, í samtali við mbl.is inntur eftir áliti á stöðunni í Rússlandi í dag.
Þá segir Albert það merki um veikleika Pútíns að hann hafi þurft að semja við Prigósjín, manninn sem reyndi valdarán í Rússlandi, koma honum úr landi og fá liðveislu Lúkasjenkós til þess.
„Ára Pútíns hlýtur að vera beygluð eftir þetta. Síðan veltir maður því fyrir sér hvaða áhrif þessi uppákoma öll í gær og þessar afleiðingar sem ég held að séu augljósar fyrir stöðu Pútíns, hafa á stríðsreksturinn.“
Spurður að þætti Lúkasjenkós og Hvíta-Rússlands í samningaviðræðunum við Prigósjín og Wagner-liðana svarar Albert því til að talið hafi verið nauðsynlegt að fara þá leið. Þá sé augljóst að menn séu orðnir hræddir þegar gripið sé til slíkra ráðstafana.
„Það var greinilega ótti við hvað gæti gerst og hvernig þetta gæti þróast og óttinn var nægur til þess að það er samið við Prigósjín og liðveisla sótt til Lúkasjenkó. Þetta er auðvitað allt get ég ímyndað mér í augum margra veikleikamerki,“ segir Albert og bætir því við að erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvað verði um Prigósjín í framtíðinni.
Albert bendir einnig á að athyglisvert sé að leitað hafi verið til Tétsena en þeir eru þekktir fyrir að vera á bandi Pútíns.
„Eitt sem kemur í ljós í gær er að Tétsenar voru sendir til Rostov. Það voru engir aðrir og það hlýtur að beina sjónum að þessu stríði og í hvaða stöðu Rússar eru. Það eina sem þeir áttu til að fara gegn Prigósjín í Rostov voru sveitir Tétsena en þeir hafa stutt Pútín og gera greinilega enn. Þannig að það sem gerðist í gær er enn einn veikleikinn sem kemur í ljós í afleiðingum á þessu stríði.“
Þá veltir Albert þeirri spurningu upp hvaða afleiðingar þetta hafi og hvað taki við, hvort ein afleiðingin verði sú að róðurinn verði hertur eins og hægt er.
„Þar hafa Rússar ekkert marga kosti aðra en að verjast auðvitað af meiri hörku gegn sókn úkraínska hersins og svo hafa þeir náttúrulega þá kosti að herða á árásum á innviði og óbreytta borgara. Það gæti orðið ein afleiðing en svo er erfitt að átta sig á hvaða áhrif þetta hefur á herinn í Úkraínu, rússnesku hermennina.“
Þá telur Albert að atburðir síðustu daga gætu verulega veikt rússneska herinn í Úkraínu og vilja hermannanna til að berjast og halda stríðinu áfram.
„Svo hafa menn líka haft áhyggjur af því að sókn Úkraínuhers gangi ekki vel og það eru vísbendingar um að þessar öflugu varnarlínur sem Rússar hafa sett upp hafi verið að virka en aðrir segja að Úkraínuher eigi enn eftir að senda allt sitt lið, þeir hafi bara notað um þriðjung af liðinu sínu að svo komnu máli. Við verðum bara að bíða og sjá hvað er rétt í því. Eins hefur það verið vitað lengi og ég hef talað um það oft áður að Úkraínuher stendur frammi fyrir afar mikilli og alvarlegri áskorun hvað varðar þessa gagnsókn sem er í raun ekki hafin en hún hefst ekki fyrr en þeir reyna að brjótast í gegnum varnir Rússa.“