Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér yfirlýsingu í kvöld, þar sem þau fordæma nauðungarsölu á heimili öryrkja, en til stendur að bera hann og fjölskyldu hans út á föstudaginn.
Greint var frá málinu í kvöldfréttum RÚV í kvöld, en þar sagði frá Jakub Polkowski, ungum öryrkja, sem fékk bætur fyrir alvarleg læknamistök og nýtti þær til þess að kaupa sér einbýlishús í Reykjanesbæ.
Jakub gerði sér hins vegar ekki grein fyrir því að þó að hann ætti húsið skuldlaust, að hann þyrfti að greiða af því ýmis gjöld, sem söfnuðust saman og leiddu að lokum til þess að húsið var selt á nauðungaruppboði fyrir þrjár milljónir kr. en það er verðmetið á um 57 milljónir í dag.
Í yfirlýsingu hagsmunasamtakanna segir m.a. að sýslumaður hafi samþykkt það boð þó það væri „langt undir eðlilegu verði fyrir húsið og nýtti ekki heimild í lögum til að fresta uppboði þegar svo háttar til og freista þess að fá hærra verð.“
„Þar sem söluverðið nægir rétt svo fyrir skuldunum mun ungi maðurinn standa eftir allslaus fyrir vikið,“ segir í yfirlýsingu hagsmunasamtakanna, sem segja málið vekja upp ýmsar spurningar.
Spyrja þau m.a. hvort að bæjaryfirvöld, sem voru meðal kröfuhafa, hafi ekki vitað af aðstæðum unga mannsins? „Vöknuðu á engu stigi spurningar um að vanskilin gætu tengst fötlun hans þannig að með réttri aðstoð gæti hann mögulega staðið í skilum með gjöldin svo hann þyrfti ekki að missa heimili sitt?“
Þá spyrja samtökin hvort að aldrei hafi hvarflað að sýslumanni að kanna aðstæður mannsins áður en tekin var ákvörðun um að hefja nauðungaruppboð á heimili hans, ekki síst í ljósi þess að skuldir hans voru lágar miðað við verðmæti hússins. „Kynnti sýslumaðurinn ekki fyrir honum möguleikann á því að selja húsið á almennum markaði til að fá eðlilegt verð svo hann yrði ekki allslaus eftir söluna?“ spyrja samtökin enn fremur.
Hagsmunasamtök heimilanna fordæma framgöngu allra hlutaðeigandi í þessu dapurlega máli og segja að ef rétt hefði verið staðið að málum hefði aldrei átt að þurfa að koma til þess að svona langt yrði gengið.
Segja hagsmunasamtökin einnig að þau hafi „lengi og ítrekað skorað á stjórnvöld að endurskoða lög um nauðungarsölu frá árinu 1991, sem eru löngu orðin barn síns tíma, með hliðsjón af þeirri þróun sem síðan þá hefur orðið á löggjöf á sviði mannréttinda og neytendaverndar.“
Þá sýni atburðir síðustu daga, bæði þetta mál og Íslandsbankamálið, fram á nauðsyn þess að gerð verði rannsóknarskýrsla um meðferð banka og sýslumanna á heimilunum eftir hrun. „Því það virðist lítið sem ekkert hafa breyst á Íslandi frá hruni,“ segir í tilkynningunni.