Foreldrar verði að fylgjast með notkun Hopp-hjóla

Hopp rafhlaupahjól má sjá víða um land.
Hopp rafhlaupahjól má sjá víða um land. Ljósmynd/Aðsend

Rekstrarstjóri rafhlaupahjólafyrirtækisins Hopp segir fyrirtækið ekki leyfa einstaklingum yngri en átján ára að nota þjónustuna. Erfitt sé þó að koma í veg fyrir það nema með hjálp foreldra og forráðamanna þar engin aldurstakmörk séu á notkun rafhlaupahjólanna í lögum.

„Við leyfum ekki fólki yngra en átján ára að nota hjólin okkar en það er samt alveg raunverulegt, það getur gerst, en það er einfaldlega sökum þess að við fáum engar upplýsingar um viðkomandi í gegnum kortið,“ segir Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri Hopp, í samtali við mbl.is.

Rafræn skilríki ekki lausnin

„Þá er hægt að spyrja sig hvort það væri hægt að nota rafræn skilríki eða eitthvað svoleiðis til þess að staðfesta hver einstaklingurinn er. En síðan er það bara einfaldur raunveruleiki að allt fólk sem er ekki Íslendingar er ekki með rafræn skilríki og mikið af fólki sem býr á Íslandi og eru aðkomufólk, eru Íslendingar en hafa ekki búið nógu lengi hérna til þess að vera með rafræn skilríki, er ekki með þau heldur. Þannig við getum ekki bannað öllum sem eru ekki með rafræn skilríki að nota þjónustuna okkar bara til þess að passa að allir séu auðkenndir,“ segir Eyþór Máni enn fremur.

mbl.is greindi frá því á dögunum að sex ára drengur hefði slasast á þjóðhátíðardaginn á Selfossi þegar ellefu ára drengur ók á hann á fyrir mistök á Hopp rafhlaupahjóli. Betur fór en á horfðist og endaði yngri drengurinn með skrámu og glóðarauga og sá eldri var, að sögn móður yngri drengsins, miður sín eftir atvikið.

Í samtali við mbl.is velti hún því upp hvernig svo ungt barn gæti notað rafhlaupahjólin frá Hopp, á þessum aldri hafi börn ekki þróað með sér næga vitund í umferðinni.

Foreldrar þurfi að samþykkja notkun ófjárráða 

Eyþór segir fyrirtækið ekki vilja að svo ung börn noti hjólin en lög banni það ekki.

„[...] samkvæmt íslenskum ökutækjalögum þá má tveggja ára barn nota rafskútur ef þau vilja það, sem er fáránlegt, það ætti klárlega ekki að vera þannig. Það eru búin að vera ný umferðarlög í vinnslu núna síðan 2021 ef ég man rétt og þau ættu að koma út á næstunni en maður veit aldrei, þingið var náttúrulega að loka þannig það gæti verið að það gerist á næsta þingári. Þá verður aldurstakmarkið þrettán ára sem að mér finnst miklu eðlilegra persónulega,“ segir hann.

„Síðan er þetta náttúrlega bara undir foreldrum komið. Það virkar þannig að þegar þú ert ófjárráða og færð kort þá þarf foreldri að samþykkja notkunina,“ bætir hann við.

Hafa ekki áhuga á að gera samning við ólögráða einstaklinga

Spurður hvort fyrirtækið hafi verið að leita leiða til þess að koma í veg fyrir þetta segir hann það þurfa að leita til forráðamanna í þessum efnum. Eins og staðan sé geti ungir krakkar alveg eins farið út í búð og keypt sér nammi og notað Hopp hjól en forráðamenn ættu að fylgjast með notkun barna sinna.

„Ég á ekki ellefu ára barn sjálfur þannig ég veit ekki alveg hvernig þessi kort virka en ég ímynda mér að það sé hægt að samþykkja og hafna færslum. Þegar foreldri gefur barninu sínu kort þá er það ákveðin svona sjálfstæðisyfirlýsing. Og þegar að lögin segja það líka að barnið megi nota þjónustuna þá er það í raun og veru bara samningssambandið á milli leigunnar og okkar sem verður brotið með því að barnið noti hjólið. Við viljum það ekki, við getum ekki gert samning við ólögráða einstakling, við getum það bókstaflega ekki og hefðum ekki áhuga á því að gera það. Við viljum alltaf að það sé einhver sem er forráðamaður á bak við notkunina,“ segir Eyþór.

„Gífurlega sjaldgæft“ að svona gerist

Hvað varðar hámarkshraða á hátíðarsvæðum þurfi að eiga sér stað samtal á milli rekstraraðila á svæðinu og bæjarins skuli það gert. Hann viti þó ekki hvort það hafi verið gert eða ekki á Selfossi þennan dag.

„Það er náttúrulega alltaf óheppilegt þegar svona gerist en líka gífurlega sjaldgæft, þetta er í held ég fyrsta skipti sem ég veit af einhverjum svona ungum að nota þjónustuna. Það er ekki að segja að það hafi aldrei gerst fyrir utan þetta en þetta er í fyrsta skipti þegar það hefur orðið eitthvað slæmt úr því og það er af 6,6 milljónum ferða sem hafa verið farnar. Það er að sjálfsögðu alltaf leiðinlegt þegar fólks slasast og sérstaklega á þjónustunni okkar, við tökum því mjög alvarlega og viljum gera allt hvað við getum til þess að sporna gegn því að svona slys geti átt sér stað yfir höfuð. Það er ennþá bara í umræðu innanhúss hvað hægt sé að gera, að því sögðu þá höfum við verið að skoða það í þrjú ár,“ segir Eyþór.

„Ætlarðu að spyrja fjórtán ára krakka um skilríki“

Hann segir fyrirtækið ekki hafa þau verkfæri sem þurfi í augnablikinu til þess að geta gulltryggt að einstaklingar yfir átján ára séu þeir einu sem noti þjónustuna.

„Það er náttúrulega aldrei hægt að gulltryggja neitt af því að meira að segja ef við værum með rafræn skilríki þá gæti foreldri ellefu ára barns skráð sig inn og síðan afhent þeim síðan símann. Það eru alltaf leiðir og það er engin leið sem er nógu vatnsheld sem að útilokar ekki meira en helminginn af fólki sem við höfum fundið hingað til en við höldum áfram að leita,“ segir Eyþór. Hann voni að lögunum verði breytt en veltir því fyrir sér hvernig væri best að útfæra slíkt.

„[...] Það er samt spurning líka, hvernig útfærirðu svona aldurstakmark? Þetta er svolítið bara eins og þegar krökkum undir þrettán ára var bannað að fara að gosinu. Ætlarðu að spyrja fjórtán ára krakka um skilríki, hvaða skilríki? Ökuskírteini? Nei. Nafnskírteini? Er einhver fjórtán ára krakki með nafnskírteini? Þetta er alveg stórt spurningarmerki, útfærsluatriðið,“ segir Eyþór.

Undir foreldrum komið hvaða sjálfræði börn fá

Þá nefnir hann að Hopp sjái aðeins um þrjú þúsund rafhlaupahjól af þeim þrjátíu þúsund sem eru á landinu. Börn hafi í raun greiðari aðgang að þeim úti í búð í gegnum foreldra sína.

Þegar því er velt upp að pressan sé ef til vill sett á Hopp þar sem þau veiti þessa þjónustu segir Eyþór það eðlilegt þar sem Hopp sé nánast orðið að samheiti yfir rafhlaupahjól.

„[...] það er alveg allt í lagi að fólk spyrji, en á endanum þá er bara svo mikið sem við getum gert. Það er á endanum undir foreldrum komið hvaða frelsi og sjálfræði þau leyfa krökkunum sínum og ef þau hjálpa krökkunum sínum að brjóta þjónustuskilmálana okkar þá er lítið sem við getum gert,“ segir hann.

Myndu banna öll kortin ef þau gætu það

Hann nefnir að fyrirtækið myndi banna öll kort í eigum fólks undir átján ára aldri ef þau gætu.

„Við fáum ekki þessi gögn en segjum að við gerðum það og þá gætum við bara bannað öll kort hjá fólki sem er yngra en átján ára. Við værum örugglega búin að því nota bene ef það væri hægt en þá gæti líka foreldri bara sett inn sínar eigin kortaupplýsingar hjá barninu og þá ertu samt ekki búinn að útiloka vandamálið,“ segir Eyþór og nefnir að lokum að margar leiðir til útilokunar séu erfiðar í framkvæmd og virki illa í reynd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert