Greiddi 25 milljónir eftir tilmæli frá Skattinum

Kristrún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka.
Kristrún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka. Samsett mynd

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, greiddi Skattinum í vor tæpar 25 milljónir króna vegna hagnaðar af áskriftarréttindum Kviku banka sem hún hafði fjárfest í.

Þetta gerir hún í samræmi við tilmæli sem bárust frá Skattinum um að greiða ætti launaskatt en ekki fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum. Tilmælin bárust öllum sem höfðu fjárfest í áskriftarréttindum eða kaupréttum sem voru í boði fyrir starfsfólk bankans.

Heimildin greinir frá.

Greiddi 22 milljónir í fjármagnstekjuskatt

Málið má rekja til þess tíma þegar að Kristrún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka, á árunum 2018 til 2021.

Hafði Kristrún fjárfest í áskriftarréttindum og á sínum tíma greitt um 22 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum, sem nam 101 milljón króna. Í samtali við Heimildina kveðst Kristrún hafa gert það í samræmi við leiðbeiningar bankans.

Það var aftur á móti mat skattayfirvalda, sem hafði málið til skoðunar um nokkurt skeið, að greiða ætti fjármagnstekjuskatt af þeim hagnaði sem starfsmenn Kviku hafa innleyst vegna áskriftarréttinda.

Heimildin hefur eftir Kristrúnu að tilmælin hafi borist í vor og hún hafi ekki gert athugasemd við matið og beðið um að greiða mismuninn strax, sem hún gerði síðan.

Vildi ekki tjá sig um persónuleg fjármál

Viðskiptablaðið vakti athygli á könnun skattayfirvalda haustið 2021.

Í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is í kjölfarið kvaðst Kristrún ekki vilja tjá sig um sín persónulegu fjármál eða viðskipti sem hún átti áður en hún hóf afskipti af stjórnmálum.

Vísaði hún í ítarlegar færslur sem hún hafði skrifað og birt á netinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert