„Málinu er lokið fyrir mína parta“

Samsett mynd

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við mbl.is að hún hafi greitt Skattinum miðað við endurmat hans á greiðslum.

Kristrún var ein margra starfsmanna Kviku banka sem á sínum tíma högnuðust á áskriftarleið bankans. Voru þær tekjur upphaflega gefnar upp til fjármagnstekjuskatts, en Skatturinn taldi það réttara að skattleggja þær eins og um launagreiðslur væri að ræða.

Gekk strax frá við Skattinn

Kristrún segir að hún hafi fengið bréf frá Skattinum í byrjun mánaðar.

„Þar kemur fram að svo virðist sem hagnaðurinn af hlutabréfunum sem ég keypti í Kviku teljist sem laun en ekki fjármagnstekjur. Þessi ályktun er dregin af nýlegum úrskurði í öðru máli, sem þýðir þó ekki að þetta sé endanleg niðurstaða. Það er hægt að fara með svona mál fyrir yfirskattanefnd.

Í þessari fyrirspurn var verið að bjóða mér að koma mínum sjónarmiðum á framfæri og óskað eftir frekari gögnum. Ég bað einfaldlega um endurákvörðun opinberra gjalda þannig að ég greiddi launaskatt en ekki fjármagnstekjuskatt af þessum hagnaði. Ég fékk þá endurákvörðun og borgaði hana. Málinu er lokið fyrir mína parta.“

Kristrún segir því að hún hafi enga kröfu fengið frá Skattinum né hafi hún verið krafin um neitt sektarálag.

Heimild til að innheimta álag

Mbl.is ræddi sömuleiðis við Ásmund­ G. Vil­hjálms­son, lög­fræðing­ og höfund bókarinnar Stjórnsýsla skattamála. Ásmundur fór yfir verklag Skattsins í svona málum.

Að sögn Ásmundar eru slíkar fyrirspurnir Skattsins sendar og fólk beðið um frekari upplýsingar. Fólk fær þá 15-20 daga frest til að svara bréfinu. Í kjölfarið kemur endurmat á skattgreiðslum, gjarnan með 25% álagi, líkt og heimild sé fyrir í 108. grein laga um tekjuskatt, þar sem segir:

„Séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna“.

Þar segir jafnframt:

„Fella skal niður álag samkvæmt grein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.“

Virðist sem Skatturinn hafi metið mál Kristrúnar þannig að skjót viðbrögð hennar falli undir síðari liðinn þar sem ekkert sektarálag var sett á greiðslu hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert