Bessastaðanes var friðlýst með stuttri athöfn í morgun. Að friðlýsingunni koma meðal annars sveitarfélagið Garðabær, embætti forseta Íslands og umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytið.
Við athöfnina benti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands að mennirnir hafi mikil áhrif á umhverfi sitt.
Hann benti viðstöddum á tvo hólma sem Ásgeir Ásgeirsson forseti hafi látið útbúa eða bæta í til að efla æðarvarp. Sömuleiðis nefndi hann að tjörnin við Bessastaði hafi í raun langt fram á síðustu öld verið ós, en landfylling gert ósinn að tjörn þar sem ekki gæti lengur sjávarfalla.
Hann benti nærstöddum á grasflöt sem heitir Prentsmiðjuflöt, þar sem Skúli Thoroddsen, langalangafi Katrínar Jakobsdóttur, hafi rekið prentsmiðju. Forseti segir svæðið nú allt friðlýst svo framtíðarkynslóðir geti notið útivistar og dýralíf fái þrifist.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra voru líka við athöfnina og undirritaði Guðlaugur Þór yfirlýsingu ráðuneytisins. Í samtali við mbl.is telja þeir báðir að friðlýsingin loki endanlega á hugmyndir sem verið hafa um flugvöll á Álftanesi.
Almar var spurður að því hvernig friðlýsingin rími við framtíðarhugmyndir Garðabæjar um uppbyggingu á Álftanesi.
Almar svaraði: „Sú skipulagsvinna sem var hér í gangi fyrir um 5-10 árum síðan, hún rammaði þetta inn. Við gerðum ráð fyrir byggð. Við erum að þétta byggðina inn í miðju Álftaness. En við látum önnur svæði utanum ósnortin og friðlýsum eftir þörfum. Okkur hefur þótt það vera hluti af skipulagsvinnunni. Ég held að það sé líka mjög stór þáttur í þessu að embætti forsetans sé hér og hafi til þess rými og tengingu við náttúruna. Það er dálítið íslenskt að hafa það þannig.“
Í máli sínu skaut Guðlaugur Þór föstum skotum til Reykjavíkurborgar vegna áforma um nýja byggð í Skerjafirði. Í samtali við mbl.is sagði Guðlaugur Þór:
„Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun hafa margoft varað við að stíga þessi skref í öllu ferlinu. Ég hef ekkert legið á því að ég tel að hér sé umhverfisslys í uppsiglingu. Ég hef ekki fengið nein málefnaleg rök gegn því mati mínu.“