Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir tímann nauman til að afla grænnar orku fyrir Vestfirði.
Þetta segir hann í samtali við mbl.is í framhaldi að útgáfu skýrslu starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum. „Þetta er skýrsla gerð af Vestfirðingum, eftir náin samtöl við aðra Vestfirðinga. Enginn þekkir svæðið betur en þau“, segir Guðlaugur Þór.
Ráðherra segir græna byltingu í gangi, en eins og sakir standa hafi Vestfirðingar brennt 2,1 milljónum lítra af dísilolíu til raforkuframleiðslu og húshitunar á síðasta ári. Við þetta ástand megi ekki búa.
Fái Vestfirðingar ekki græna orku er verið að senda þeim þau skilaboð að þeir fái ekki að vera með í orkuskiptunum fram undan.
Guðlaugur Þór segir það niðurstöðu skýrslunnar að lítill tími sé til stefnu og sjálfur tekur hann undir það. Hann segir það alveg geta komið til greina að vatnsaflsvirkjun verði reist í friðlandi í Vatnsfirði, fordæmi séu fyrir slíkum framkvæmdum. Þar gildi þó eins og í öðru að vanda sig.
Skýrslan leggur líka áherslu á samhæfingu við meðhöndlun úrgangs, sem felur í sér markmið um endurvinnslu, endurnýtingu og minni urðun. Ráðherra fagnar því að sjá þetta í skýrslunni.
„Margt af því sem við köllum úrgang í dag eru í raun verðmæti. Á Vestfjörðum býr fátt fólk á stóru landsvæði. Margar þær lausnir sem virka í fjölmennari byggðum í nágrannalöndum okkar virka ekki hér og þarf að finna nýjar. Ég hef fulla trú á íslensku hugviti til að finna slíkar lausnir.“
Hann segir sig og ráðuneyti sitt vera að fara yfir tillögur skýrslunnar og send verði út tilkynning mjög fljótlega um hvernig unnið verður áfram með þær.