Óánægja með ríkisstjórnina aldrei verið meiri

Óánægja með störf ríkisstjórnarinnar hefur aldrei verið meiri.
Óánægja með störf ríkisstjórnarinnar hefur aldrei verið meiri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óánægja með störf ríkisstjórnarinnar heldur áfram að aukast og hefur aldrei verið meiri. Nú á öðrum ársfjórðungi er í fyrsta sinn meira en helmingur aðspurðra óánægður með störf ríkisstjórnarinnar, eða 54 prósent.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem birtir niðurstöður á ársfjórðungsfresti um ánægju með störf ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar.

Á fyrsta ársfjórðungi sögðust 48 prósent aðspurðra óánægð.

Á sama tíma fækkar þeim sem eru ánægð með störf hennar um 5 prósentustig á milli ársfjórðunga og eru því nú aðeins 18 prósent aðspurðra ánægð með störf ríkisstjórnarinnar.

Óánægja með störf stjórnarandstöðunnar eykst

Óánægja með störf stjórnarandstöðunnar eykst sömuleiðis eða um 5 prósentustig. Nú segjast 42 prósent aðspurðra óánægð með störf hennar og aðeins 14 prósent ánægð, sem er um einu prósentustigi lægra en á fyrsta ársfjórðungi.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 4.892, en þeir eru alls staðar að af landinu, 18 ára og eldri.

Gögnin séu vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegli því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram á tímabilinu apríl til júní 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert