Gagnrýna fréttaflutning Rúv

Samtökin ‘78 standa að keppninni um hýryrði ársins 2023.
Samtökin ‘78 standa að keppninni um hýryrði ársins 2023.

Borið hefur á gagnrýni vegna sjónvarpsfréttar Rúv í gærkvöldi þar sem fjallað var um Hýryrðakeppnina 2023, sem Samtökin ‘78 standa að.

Markmið keppninnar í ár er að leita að kynhlutlausum orðum. Meðal þess sem leitað er eft­ir er nafn­orð sam­bæri­legt orðunum amma og afi sem hægt væri að nota um kynseg­in fólk.

Í frétt Rúv var farið út af örkinni og viðmælendur spurðir hvað þeim fyndist um uppátækið. Skildu flestir viðmælanda spurninguna þannig að markmið keppninnar væri að skipta út orðunum afi og amma út fyrir alla. Sögðu margir viðmælanda vilja vera afi og amma áfram. Þótti þá hugmyndinni á bakvið keppnina snúið nokkuð á haus.

Fréttin gamaldags gjörningur

Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna ‘78, skrifaði Facebook-færslu um málið.

Benti hún á að í frétt Rúv hafi verið talað við Ástu Kristínu Benediktsdóttur, lektor við íslenskudeild Háskóla Íslands og formann nefndarinnar. Ásta Kristín hafi verið mjög skýr í máli að ekki stæði til að hreinsa tungumálið af orðunum afi og amma.

Bjarndís Helga minnist í framhaldinu á það bakslag sem hafi orðið í málefnum hinsegin fólks. Því þyki henni furðulegt að svo mikið pláss í fréttinni hafi verið gefið í að spyrja gangandi vegfarendur um málið út frá forsendum byggðum á misskilningi.

Það sem mér finnst furðulegt og í raunar algjörlega óásættanlegt var að í stað þess að gefa sérfræðingum meira rými til þess að skýra um hvað málið snýst valdi valdi RÚV - Fréttir að vera með svo gamaldags gjörning að mér leið eins og árið væri 1995. Þar gaf RÚV fólki á götunni fleiri fleiri mínútur til þess að segja skoðun sína á einhverju sem tengist tilveru hinsegin fólks,“ sagði í færslu Bjarndísar. 

Meðal þeirra sem samsinntu Bjarndísi í ummælum við færsluna voru Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynja­fræðing­ur og fyrr­ver­andi formaður Trans Ísland, og Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert