Stuðningur við núverandi ríkisstjórn hefur aldrei mælst minni ef marka má niðurstöður Þjóðarpúls Gallup. Könnunin var gerð dagana 1. júní til 2. júlí. Heildarúrtak var 11.331 og tóku tæplega 49% aðspurðra afstöðu.
Um 35% þeirra segjast styðja sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en til samanburðar sögðust um 37% styðja sitjandi ríkisstjórn í síðasta mánuði. Stuðningur við stjórnarflokkana var um 54% í Alþingiskosningunum árið 2021.
Framsóknarflokkurinn mælist með 8,7% fylgi og tapar 1,5%. Vinstri græn mælast með 6,2% fylgi og bæta við sig 0,5% en Sjálfstæðisflokkur mælist með óbreytt fylgi, 20,8%.
Samfylkingin mælist enn með mest fylgi allra flokka en fylgi flokksins mælist óbreytt í 28,4%. Píratar mælast með 9,7% og tapa 0,4%. Viðreisn mælist með 8,1% fylgi og bætir við sig 0,5%. Miðflokkur mælist með 7,8% fylgi og bætir við sig 0,9%.
Flokkur fólksins mælist með 5,7% og bætir við sig 0,2%. Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 4,6% og tapar 0,3% fylgi.
Ef þetta yrðu niðurstöður Alþingiskosninga væri ekki hægt að mynda nýja ríkisstjórn nema með að minnsta kosti aðkomu þriggja flokka, þar á meðal Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.