Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 8,4 milljónir króna að meðaltali á síðasta ári, eða rétt tæpar 700 þúsund krónur á mánuði.
Hækkun frá fyrra ári er um 9% en sé horft til verðlagsleiðréttingar var raunhækkunin um 0,6%.
Miðgildi heildartekna var um 6,6 milljónir króna svo um helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir um það bil 550 þúsundum króna á mánuði. Miðgildi heildartekna hækkaði að raungildi um 2,2%.
Hagstofan hefur uppfært ítarlegt talnaefni um tekjur einstaklinga fyrir tímabilið 1990 til 2022 sem byggir á skattframtölum skattskyldra einstaklinga hér á landi, 16 ára og eldri, sem skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra.
Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna. Meðaltal atvinnutekna var um 5,8 milljónir króna, meðaltal fjármagnstekna um 0,8 milljónir og meðaltal annarra tekna um 1,7 milljónir króna.