Fengu tilkynningu um skjálftann í símann

Android-notendur fengu tilkynningu um jarðskjálfta í morgun.
Android-notendur fengu tilkynningu um jarðskjálfta í morgun. Samsett mynd

Notendur Android-síma fengu tilkynningu í morgun um jarðskjálfta á Reykjanesskaga. Um er að ræða sjálfvirkt kerfi í Android og er tilkynning send á alla notendur á svæði skjálftans ef hann er talinn 4,5 eða stærri. Fólk með iPhone-síma fékk ekki slíka tilkynningu.

Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans, segir í samtali við mbl.is að hver Android-sími sé í raun eins og lítill jarðskjálftamælir. Um er að ræða svokallaða hröðunarmæla sem skynja titring og hraða með mikilli nákvæmni.

„Ef Android-sími telur sig nema jarðskjálfta og fleiri Android-símar á svipuðum stað gera það líka þá fara upplýsingar um grófa staðsetningu inn í jarðskjálftakerfi Google sem vinnur þessi gögn og athugar hvað er að gerast. Ef skjálftinn er 4,5 eða stærri þá er send tilkynning á alla Android-notendur sem eru innan þess svæðis þar sem áhrif jarðskjálftans gætu fundist.“

Virkjað í stillingum

Fái Android-notandi ekki tilkynningu er það vegna þess að ekki er búið að virkja „emergency location services“ í stillingum í snjalltækinu.

„Þá ertu á sama tíma að gefa Google upplýsingar um staðsetningu,“ segir Guðmundur.

Kerfið var hannað af Google fyrir nokkrum árum síðan og fengu Android-notendur einnig tilkynningar í jarðskjálftahrinunni í fyrra áður en eldgos hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert