„Innan sólarhrings gæti eitthvað gerst“

Jóhann gerir ráð fyrir því að þriðja eldgosið verði svipað …
Jóhann gerir ráð fyrir því að þriðja eldgosið verði svipað þeim fyrri þegar glóandi kvika hefur náð að rjúfa yfirborðið. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Landrisið er mest á Fagradalsfjallasvæðinu þannig að mestar líkur eru á gosi þar,“ segir Jóhann Helgason jarðfræðingur, um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga.

Ljóst sé að auknar líkur eru á því að það gjósi í þriðja skiptið á Reykjanesskaga frá árinu 2021 þó svo að ekki sé hægt að fullyrða um það.

„Það hafa þegar verið tvö gos þarna,“ segir hann og gerir ráð fyrir því að það þriðja verði svipað þeim fyrri þegar glóandi kvika hefur náð að rjúfa yfirborðið.

„Síðasta gos var mjög stutt en ef þetta yrði lengra gos þá koma fljótlega upp vangaveltur um hvert hraunið rennur.“ Til lengri tíma gæti Suðurstrandavegur verið í hættu ef hraunið rennur til suðurs.

Jóhann telur að lítið megi út af bregða til að hraun flæði yfir fyrirstöður sem hefur verið komið fyrir á svæðinu til að halda aftur af hraunflæðinu.

Jóhann Helgason jarðfræðingur.
Jóhann Helgason jarðfræðingur.

Aðeins forleikur?

Yfirstandandi skjálftavirkni er staðbundin og hefur verið mest nálægt Fagradalsfjalli og vel er fylgst með jarðskjálftamælum.

„Innan sólarhrings gæti eitthvað gerst,“ segir Jóhann og er ekki einn um þá skoðun. „Ég held að atburðarásin sé að verða örari og mér kæmi það alls ekki á óvart þótt það yrði gos núna.“

Hann segir þó ekki gott að segja til um það hvort það verði eftir viku eða hálfan mánuð. „Þetta skýrist á næstu dögum.“

Gjósi nú verður það líklega aðeins forleikur. „Það verður að hafa það í huga að þetta er hugsanlega upphafið að miklu stærri atburði sem gerist á nokkur hundruð ára fresti,“ segir jarðfræðingurinn en erfitt er að segja til um á hversu löngum tíma það gæti gerst.

Meira má lesa um mögulegt eldgos í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert